Erlent

Íslamska ríkið mun ekki hræða Bandaríkin

Freyr Bjarnason skrifar
Obama vandar Íslamska ríkinu ekki kveðjurnar.
Obama vandar Íslamska ríkinu ekki kveðjurnar. Fréttablaðið/AP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin muni ekki láta Íslamska ríkið hræða sig, eftir að hryðjuverkasamtökin afhöfðuðu bandaríska blaðamanninn Steve Sotloff.

Í myndbandi, sem samtökin birtu af ódæðinu, hótuðu þau að drepa næst breskan blaðamann ef Bandaríkin létu ekki af loftárásum á samtökin í Írak. Að sögn Obama er búið að staðfesta að myndbandið er ekta. Tvær vikur eru liðnar síðan Íslamska ríkið afhöfðaði annan bandarískan blaðamann, James Foley.

Obama sagði að Bandaríkin myndu ekki gleyma „þessum hræðilegu glæpum gegn þessum tveimur góðu mönnum“. „Við látum ekki kúga okkur. Hryllilegar gerðir samtakanna munu einungis sameina okkur sem þjóð og gera okkur staðráðnari í að berjast gegn þessum hryðjuverkamönnum,“ bætti forsetinn við. „Þeir sem gera þau mistök að meiða Bandaríkjamenn munu komast að því að við gleymum ekki, armur okkar er langur og réttlætinu verður fullnægt.“ Obama vill uppræta Íslamska ríkið, eða IS, eins fljótt og hægt er. „Markmið okkar er ljóst og það er að skaða og eyðileggja IS þannig að engum stafi lengur ógn af samtökunum. Ekki bara Írak, heldur einnig svæðinu í kring og Bandaríkjunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×