Lífið

Flúr í öllum flokkum í boði á Sögu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Fjölnir Geir Bragason eða Fjölnir Tattú er kynnir á hátíðinni.
Fjölnir Geir Bragason eða Fjölnir Tattú er kynnir á hátíðinni.
„Hátíðin hefur farið stækkandi ár frá ári og á því er engin undantekning í ár,“ segir Fjölnir Geir Bragason, betur þekktur sem Fjölnir tattú sem er kynnir á húðflúrhátíðinni Icelandic Tattoo Expo. Hátíðin fer nú fram í þriðja sinn í Súlnasalnum á Hótel Sögu.

„Það mæta 56 listamenn hvaðanæva úr heimum á svæðið og ætla að taka á móti kúnnum. Þetta verður í fyrsta sinn sem við getum boðið Íslendingum upp á húðflúr í öllum flokkum listgreinarinnar, old school, new school, japenese, tribal, realistic og portrait,“ útskýrir Fjölnir.

Þá verða fjórir flúrarar á staðnum sem handstinga flúrin, hver og einn með sinn stíl. „Einn af þeim gerir polýnesískt húðflúr með upprunalegu aðferðinni, sem er kölluð tatau og afar sjaldgjæf.“

Sverðagleypirinn og glamúrgellan Lucky Hell mætir á hátíðina en hún er ein helsta húðflúrsfyrirsæta í heimi. „Við erum búin að reyna fá hana til liðs við okkur síðastliðin tvö ár og nú er hún loks mætt. Hún hefur setið fyrir í öllum helstu tattú- og tískutímaritum heims og hún er einna þekktust fyrir frábærar sýningar sem hún hefur sett upp um víða veröld,“ segir Fjölnir.

Þá fer fram húðflúrskeppni í fimmtán flokkum þar sem fólk getur sýnt verkin sín. Einnig fer fram svokölluð Pin Up-keppni. Hátíðin fer fram um helgina í Súlnasal á Hótel Sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×