Lífið

Íslenskur Noregskonungur í orrustu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Gunnar Víking Ólafsson er mikill víkingur og bregður sér í líki Noregskonungs.
Gunnar Víking Ólafsson er mikill víkingur og bregður sér í líki Noregskonungs. Vísir/Stefán
„Það er mikill heiður að vera kominn í þetta, ég er líka að auglýsa Reykjavík og Ísland sem er auðvitað aðalvíkingaþjóðin,“ segir Gunnar Víking Ólafsson víkingur en hann er á leið til Englands þann 19. september í annað sinn til að leika Harald harðráða Sigurðsson Noregskonung í víkingasýningu. Umrædd sýning fer fram árlega undir nafninu Orrustan við Stamford Bridge eða hin gleymda orrusta.

„Víkingaorrusta á milli Norðmanna og Englendinga var háð á nákvæmlega þessum stað árið 1066 og er þessi hátíð haldin á ári hverju á sama tíma árs og orrustan fór fram fyrr á öldum,“ útskýrir Gunnar.

Nokkur þúsund manns koma árlega á sýninguna og í henni taka þátt nokkur hundruð manns. „Menn eru að berjast og þetta eru alvöru vopn en ekki jafn beitt og upprunalegu vopnin. Þetta getur samt verið sárt en menn eru ekki að reyna drepa hver annan en við viljum búa til gott sjó,“ bætir Gunnar við.

Hann hefur einnig tekið þátt í svokallaðri Hastings-orrustu á Suður-Englandi og þar börðust allt að þrjú þúsund manns.

Gunnar er félagi og formaður í Einherjum sem eru víkingafélag Reykjavíkur en það var stofnað árið 2008. „Það eru líklega um það bil tíu félög á Íslandi og um 200 manns sem stunda víkingaæfingar af einhverju viti.“

Hann og félagar hans í Einherjum hittast hverja helgi þar sem félagið iðkar ýmsar æfingar. „Við erum með víkingahátíð um miðjan júlí og erum strax farnir að búa okkur undir næstu hátíð,“ bætir Gunnar við.

Hann segist þó ekki taka þátt í hlutverkaleikjum í Öskjuhlíðinni. „Þetta svokallaða LARP er flott fyrir krakka og unglinga til þess að undirbúa þá fyrir æfingar með alvöru vopnum, sem við notum.“

Gunnar er einnig á leið til Bandaríkjanna sem víkingur og fer vestur um haf fljótlega eftir orrustuna á Englandi. „Ég verð víkingur ásamt Ragnari, sem er lukkudýr Minnesota Vikings í bandarísku NFL-deildinni, á leik á móti Atlanta Falcons. Þetta kom til af því að ég er að fara á stærstu víkingahátíð í Bandaríkjunum í október.

Þegar forráðamenn liðsins vissu að það væri íslenskur kóngur og víkingur að koma vildu þeir fá mig. Þetta verður örugglega ótrúlega gaman,“ útskýrir Gunnar. Hann er fæddur á Íslandi en bjó í Kaliforníu í tuttugu ár þegar hann var yngri. „Ég var líka mikill stuðningsmaður Minnesota Vikings þegar ég var yngri, víkingaáhuginn kom snemma fram.“

Gunnar heitir Gunnar Víking og er ástæða fyrir því. „Þegar ég varð fimmtugur sagði mamma mér að hún hefði ætlað að skíra mig öðru nafni, eða Víkingur Þór. Þá fattaði ég af hverju ég hef alltaf haft svona mikinn áhuga á víkingum og fékk mér millinafnið Víking.“ Þá er hann einnig með bílnúmerið Víking.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×