Tíska og hönnun

Leituðu að hauskúpu á Facebook

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Helga Gvuðrún og Orri hafa hauskúpuna til hliðsjónar.
Helga Gvuðrún og Orri hafa hauskúpuna til hliðsjónar. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
„Hauskúpan er mjög hlaðið tákn sem hefur vægi í menningu allra heimsálfa,“ segir Helga Gvuðrún Friðriksdóttir sem skipar hönnunarteymið Orri Finn ásamt manni sínum, Orra Finnbogasyni.

Þau Orri eru nú að undirbúa verk sem þau munu sýna á 90 ára afmælissýningu Félags íslenskra gullsmiða í október. Helga Gvuðrún og Orri fengu að láni hauskúpu til þess að hafa til hliðsjónar við gerð skúlptúrsins sem þau eru að gera fyrir sýninguna. Þau eru einnig að vinna að nýrri skartgripalínu þessa dagana og tengja þema hennar inn í skúlptúrinn, mun hann því að vissu leyti ljóstra upp um viðfangsefni nýju skartgripalínunnar.

Helga og Orri vinna mikið með tákn í hönnun sinni. Þau hafa sent frá sér tvær skartgripalínur, Akkeri og Scarab, þar sem táknið er innblástur þeirrar fyrrnefndu og egypsk bjalla, goðýfill, þeirrar seinni. Nýja línan verður hins vegar innblásin af fléttum.

„Við erum búin að vera með fléttur á heilanum í örugglega hálft ár og vorum ákveðin í því að fléttur yrðu innblástur nýju línunnar sem kemur núna fyrir jólin. Okkur langaði til þess að vinna með fléttur á óhefðbundinn og þrívíðan hátt,“ segir Helga. „Verkið er í skúlptúrformi og við erum í rauninni að nota fléttuna sem efni. Við erum að byggja skúlptúrinn úr fléttum sem gerðar eru úr málmi.“

Hauskúpan sem þau nota til hliðsjónar fengu þau lánaða hjá nágrönnum sínum eftir nokkra leit og margar ábendingar. „Við notuðum Facebook til þess að auglýsa eftir hauskúpu og fengum margar ábendingar en ekkert af því gekk upp. Síðan datt okkur í hug að athuga með nágranna okkar á Ízlensku húðflúrstofunni á Hverfisgötu og þá áttu þeir þessa fínu hauskúpu. Við notum hauskúpuna til þess að vinna út frá, við viljum gera hana svona blöndu af raunveruleika og algjörum súrrelisma.“ Vinnan við skúlptúrinn er nokkuð framúrstefnuleg því þau hafa líka verið að nota anatómíubækur til hliðsjónar.

„Það er tannsmíðastofa hérna í húsinu og við fengum lánaðar anatómíubækur hjá þeim sem við styðjum okkur við,“ segir hún.

Þau Helga og Orri vinna allt saman og hún segir samstarfið ganga vel. „Orri er gullsmiður en við hönnum allt saman. Ég vinn þá gullsmíðavinnu sem ég get unnið. Í þessari línu sem við erum að vinna að núna kemur þessi samvinna sér sérstaklega vel því við þurfum að gera svo mikið saman. Það er mikið mál að flétta málmana og það þarf alveg fjórar hendur í það. Það er ótrúlega heppilegt hvað við erum lík og fáum oft sömu hugmyndirnar þannig að þetta hefur gengið mjög vel.“

Sýningin sem um ræðir verður í Hönnunarsafni Íslands og verður opnuð 18. október. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×