Lífið

Æsir kynorku upp í Akureyringum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Snorri Ásmundsson
Snorri Ásmundsson MYND/spessi
„Þetta verður ofursýning. Hún heitir „ok?““ segir gjörningalistamaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Snorri Ásmundsson en hann hefur mörg járn í eldinum um þessar mundir.

Hann opnar sýningu í sal Myndlistarfélagsins á Akureyri í kvöld klukkan átta.

„Flest verkin vann ég á Akureyri, mínum heimabæ. Þetta eru bæði teikningar og málverk auk þess sem ég verð að sjálfsögðu með gjörninga til að æsa kynorkuna upp í Akureyringum að gömlum sið,“ heldur Snorri áfram.

„Ég er náttúrulega þekktur óþekktarangi á Akureyri og þótt víðar væri leitað,“ en Snorri er vel þekktur fyrir uppátækjasemi sína.

Hann hefur meðal annars boðið sig fram til forseta Íslands, auk þess sem hann stofnaði sjálfstætt ríki á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum. Snorri er heiðursborgari bæði á Akureyri og Seyðisfirði þótt megi deila um réttmæti þeirra tilnefninga.

Snorri dvelur í Davíðshúsi um þessar mundir en næst á dagskrá hjá honum er ferðalag til Los Angeles í vinnustofudvöl í nokkra mánuði þar sem hann kemur til með að leggja drög að næstu verkum sínum.

Á meðal annarra verkefna sem Snorri vinnur nú að ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni og Marteini Þórssyni er kvikmynd í fullri lengd.

„Myndin er á frumstigi, en ég hafði samband við Matta í sumar og sagði honum frá því að mig langaði að gera mynd um raðmorðingja. Ég hef haft mikinn áhuga á raðmorðingjum um langt skeið. Við ákváðum að fá Tyrfing til að skrifa með okkur handrit og eftir að ég hafði samband við hann og sagði honum frá hugmyndinni í stórum dráttum ákvað hann að slá til. Ég held þetta verði mögnuð kvikmynd,“ segir Snorri að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×