Lífið

Gerði misheppnaðar tilraunir til að hætta í tónlist

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ólöf Arnalds
Ólöf Arnalds
Ég hef einhvern veginn alltaf gert tónlist og spilað af því að ég get ekki að því gert,“ segir söngkonan Ólöf Arnalds sem sendir frá sér plötuna Palme á mánudaginn. Platan varð til á sex mánuðum. „Sem er frekar stutt miðað við mig, ég er yfirleitt lengur með plötur,“ segir hún er blaðamaður sest niður með henni í Mengi á Óðinsgötu, viðburðastað sem hún tók þátt í að stofna.

Spurð um plötuna segir Ólöf hana vera frábrugðna þeim fyrri að því leyti að nú hafi hún leyft öðrum að koma að sköpuninni með sér. Áður hafi hún haldið fastar um taumana. „Hún er svolítið ólík því sem ég hef gert áður að því leyti að hún er pródúseraðri. Ég vann hana með Gunna Tynes sem var með mér í Múm og líka Skúla Sverrissyni sem ég hef unnið með í mörg ár,“ segir hún, en sá síðarnefndi er einnig sambýlismaður hennar.

Stöðugt að semja

Eins og áður sagði tók það hana sex mánuði að fullgera plötuna. „Sum lögin átti ég að vísu á lager. Ég er stöðugt að semja þannig að ég á yfirleitt eitthvað til. Oft eru það bara einhver brot sem ég síðan raða saman,“ segir hún og útskýrir nánar: „Ég er mjög oft komin langt með að semja lag í heild sinni í huganum áður en ég tek upp. Ég heyri það fyrir mér, kannski hef ég alltaf gert það þannig því ég átti svo erfitt með að læra á tölvur og upptökudót eða öfugt, ég lærði ekki á það af því ég á svo auðvelt með að gera þetta svona,“ segir hún.

„Stundum gleymi ég lögunum svo til strax en síðan koma þau upp aftur. Á vissan máta er það mælikvarði á það hvort það sé þess virði að gera eitthvað við lagið, að það hafi náð að geymast og ekki lent of neðarlega í skjalaskúffunni í huganum. Ef það hverfur ekki þá er það þess virði að taka það lengra,“ segir hún brosandi.



Vildi ekki eignast barnið á kínverskum veitingastað


Fyrsta hljómsveitin sem Ólöf spilaði í var unglingahljómsveitin Mósaík sem hún stofnaði ásamt nokkrum vinum til þess að taka þátt í Músíktilraunum. „Það var unglingahljómsveit sem ég var í með Benna Hemm Hemm, Hönnu Ruth Ólafsdóttur og Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur. Við vorum öll í kleinu því við ætluðum að finna upp hjólið með hverri nótu. Það mátti ekkert vera sem hljómaði eins og neitt sem einhver hafði gert áður. Þetta var mjög artí,“ segir hún hlæjandi.



Þaðan lá leiðin í hljómsveitina Múm þar sem hún var ráðin inn sem hljóðfæraleikari og túraði með sveitinni um heiminn í um fimm ár. Fyrsta sólóplatan hennar kom svo út árið 2007. „Ég hætti í Múm um það leyti sem fyrsta platan kom út og varð svo ólétt fljótlega eftir það,“ segir hún. Ólöf ferðaðist um heiminn og spilaði víða meðan hún var ólétt. „Ég held að ég hafi farið síðustu ferðina þegar ég var komin átta mánuði á leið. Ég var með gítarinn rúllandi á bumbunni eins og plánetu við plánetu,“ segir hún hlæjandi. „Benni Hemm Hemm kom með mér í það ferðalag ef ske kynni að ég færi af stað. Svo hugsaði ég með mér þegar ég sat á einhverjum kínverskum veitingastað í Hollandi að mig langaði ekki að eignast barn á kínverskum veitingastað. Þá ákvað ég að draga í land og aðeins að róa mig niður,“ segir hún.

Kenndi sjálfri sér á gítar

Tónlistin hefur alltaf verið viðloðandi líf söngkonunnar, allt frá því hún var lítið barn. „Ég byrjaði í hefðbundnu klassísku námi þegar ég var 6 ára gömul.“ Fyrst lærði hún á fiðlu en skipti fljótlega yfir í söng. „Ég var nýkomin inn í tónlistarskólann þegar ég sá það að ég treysti mér ekki til að strjúka beinan boga í klukkutíma á dag til að laga tæknina. Ég var svo heppin að Rut Magnússon söngkona, sem var frábær kennari, var til í að taka mig inn sem nemanda hjá sér þannig að ég fékk að skipta eiginlega bara rétt eftir að ég byrjaði í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Rut kenndi mér bæði mikið um ljóðlist og tónmál. Hún var mjög þolinmóð og skilningsrík gagnvart því hvað ég átti erfitt með að lesa nótur,“ segir hún þakklát.

Ólöf segist alltaf hafa átt erfitt með að lesa nótur og fara hefðbundnar leiðir í tónlistinni. „Ég hafði samt mikla löngun og minn skilning á músík. Ég kenndi síðan sjálfri mér á gítar og það var svolítil uppreisn æru því að þá gat ég nálgast hljóðfæri á minn hátt. Ég gat notað minn skilning og mitt eyra til þess að læra,“ segir hún. Gítarinn hefur svo orðið það hljóðfæri sem hún notar hvað mest ásamt auðvitað röddinni í tónlistarsköpun sinni og túlkun.

Ólöf segir að það sé mikið af tónlistarfólki í fjölskyldu hennar. Hún á tvær systur sem einnig eru í tónlist og svo er tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds náfrændi hennar. Þó segir hún að það hafi aldrei verið nein pressa frá neinum öðrum en henni sjálfri að halda áfram í tónlistinni. „Ég átti erfitt með að sitja kyrr að æfa mig og einbeita mér að náminu. Mamma og pabbi buðu mér oft að hætta í tónlistarnáminu en ég vildi það ekki. Einhvern veginn lafði ég inni í náminu,“ segir hún.

Vegbúi á þakkargjörðarhátíðardaginn í Ameríku.


Tók sér frí frá ferðalögum


Árið 2009 sendi Ólöf frá sér plötuna Innundir skinni og Sudden Elevation kom út í fyrra. Undanfarin ár hefur hún verið mikið á tónleikaferðalögum. „Ég hef spilað í allri Evrópu, víða í Bandaríkjunum og í Ástralíu.“

Hún segir það venjast fljótt að vera svona mikið á ferðalögum og kannski sé það bara orðinn viss hluti af henni. 

„Það er bæði auðvelt að vera á tónleikaferðalagi og líka erfitt. Það er sumpart þannig að ef maður er búinn að vera eins og ég frá því ég var 22 ára á stanslausum ferðalögum í það minnsta þriðja hluta ársins þá verður það alveg eins heimilislegt eins og að vera heima hjá sér. Maður aðlagast bara.“

Sonurinn Ari, sem er sex ára gamall, hefur þó ekki ferðast mikið með móður sinni. „Mér hefur fundist það vera frekar hans hagsmunir að vera heima og halda sinni rútínu með skólann og vinina. Ég deili forræðinu með barnsföður mínum og það hefur ræst ágætlega úr því. Hann er hjá pabba sínum þegar ég er að ferðast og svo er ég í mömmó þegar ég er heima. Ég passa alltaf upp á að hann sé númer eitt,“ segir hún. „Ég hef reyndar lítið ferðast undanfarin tvö ár. Ég tók mér smá frí frá ferðalögum til þess að jarðtengja mig og hlúa að heimilinu og svona. Hafa kjarnann í lagi,“ segir hún brosandi.

Með Klöru systur og Ingibjörgu Elsu á æfingu fyrir tónleika í Cafe Flóru.
Allir fá borgað

Meðan Ólöf tók sér frí frá tónleikaferðalögum einbeitti hún sér að því að semja tónlist en hún hefur einnig tekið þátt í að setja á laggirnar Mengi þar sem fara fram tónleikar og ýmsir menningarviðburðir. Skapandi vettvangur, meðal annars fyrir tónlistarfólk til þess að halda tónleika. „Þetta er búið að vera mjög spennandi og það er margt í gangi hérna. Hér fá líka allir tónlistarmenn sem koma fram borgað. Það hefur færst svo í aukana að tónlistarfólk sé að spila og fá borgað með hamborgara og bjór. Í Mengi fá allir sem koma fram borgað. Það kostar alltaf inn og ég held að það sé betra fyrir alla.“

Uppreisn gegn sjálfri sér

Ólöf segist vera sátt við líf sitt í dag en segist vissulega hafa gert tilraunir til þess að hætta í tónlist í gegnum tíðina. „Allar tilraunir mínar til að hætta í músík hafa verið misheppnaðar. Ég hef reynt að snúa mér að öðru margoft. Kannski bara í einhverri uppreisn gegn sjálfri sér. Mig langaði til dæmis að læra málvísindi. En tónlistin hefur einhvern veginn alltaf snarað mig aftur,“ segir hún. „Ég er mjög þakklát. Mér finnst það mikil forréttindi að geta starfað við það sem ég er með ástríðu fyrir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×