Skoðun

Heimilis­vinur bregst

Elín Hirst skrifar

MS eða Mjólkursamsalan er fyrirtæki sem ég hef lengi litið á sem heimilisvin með gott vöruframboð og góða vöru. Íslenskir kúabændur hafa staðið sig vel á liðnum árum í sinni vöruþróun, á því er ekki vafi. Mér fannst einnig gott, sem neytanda, að geta verslað við önnur mjólkurfyrirtæki en MS, til dæmis Baulu og Mjólku, á meðan þeirra naut við sem sjálfstæðra fyrirtækja. Ekki síst til að geta borið saman verð og gæði milli framleiðenda.



MS var lengi vel í mínum huga ímynd hreinleika og hollustu í íslenskum matvælaiðnaði. En svo komst ég að því mér til mikilla vonbrigða að margar af þeim „hollu“ mjólkurvörum sem boðið var upp á í verslunum innihéldu viðbættan sykur í slíku magni að nærri var að tala um sælgæti en hollustuvörur. Sú mynd er mjög skýr í huga mér þegar íslenskur fréttaskýringaþáttur sýndi þennan viðbætta sykur með því að hlaða sykurmolum við hlið vörutegundanna. Góðu fréttirnar voru hins vegar þær að þessi umræða um sykurinn virtist hafa jákvæð áhrif á fyrirtækið og MS setti á markaðinn skyr og e.t.v. fleiri vörur sem merktar voru án viðbætts sykurs og smakkast alveg ljómandi vel.



En nú hafa alvarleg tíðindi borist. MS hefur samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins brotið af sér í skjóli þeirrar verndar sem það býr við og framið alvarleg samkeppnisbrot. Ef úrskurður Samkeppniseftirlitsins verður staðfestur við áfrýjun hefur MS brugðist þeim ríku skyldum sem fylgja því að hafa slíkt einkaleyfi með höndum. Fjárhæð sektarinnar sem lögð er á MS gefur til kynna alvarleika brotsins, ekki síst í því hvernig með kerfisbundnum hætti var grafið undan félögum í samkeppni. Auðvitað er einbúið að ráðist verður í lagabreytingar sem tryggja bæði hag neytenda og framleiðenda, en þar sem neytendur hafa meira vægi eins og í almennri löggjöf. Ég fagna einnig viðbrögðum Haraldar Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formanns Bændasamtakanna, í þessu máli þar sem hann hvetur til að félagið opni bækur sínar og hugi að eigin trúverðugleika.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×