Lífið

"Ég varð sköllóttur á árinu, varð fertugur á árinu og verð pabbi á því nýja“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Jón Gunnar með börnunum sínum tveimur.
Jón Gunnar með börnunum sínum tveimur. vísir/ernir
„Fyrir tuttugu árum fannst mér fertugt fólk vera það elsta í heiminum. Ég er ekki alveg sammála því í dag. Allt er þetta bara hugarástand, þessi blessaði aldur. Ég varð sköllóttur á árinu, varð fertugur á árinu og verð pabbi á því nýja. Það þýðir ekkert annað en að brosa í gegnum tárin yfir því að eldast,“ segir Jón Gunnar Geirdal, oft kallaður frasakóngur Íslands. Hann fagnar fertugsafmæli sínu í dag og verða veisluhöldin ekki af lakara taginu.

„Ég byrja á því að vakna og knúsa börnin mín. Svo er mér boðið í afmælisbröns sem systur mínar þrjár eru búnar að skipuleggja heima hjá móður minni. Síðan ætla ég að kíkja í kokteilboð hjá vinum mínum í RVK Studios og í kjölfarið borða eitthvað gott. Því næst verður blásið til veislu í Reiðhöllinni Spretti í Kópavogi þar sem ég ætla að henda upp litlu sveitaballi,“ segir Jón Gunnar, sem rekur fyrirtækið Ysland. Skemmtikraftar í afmælisveislunni eru ekkert slor.

„Það eru forréttindi fyrir gamla manninn að hafa verið í bransanum svona lengi og eiga svona marga vini. Þeir sem skemmta eru meðal annars Eiríkur Hafdal, Jón Jónsson, Kaleo, Skítamórall, Friðrik Dór, Páll Óskar og Blaz Roca. Síðan ætlar Ingó að vera með netta útgáfu af brekkusöng. Svo henda einhverjir af fyndnu vinum mínum, eins og Sveppi og Logi Bergmann, í gamanmál. Númer eitt, tvö og þrjú verður að brosa, hafa gaman og skála.“

Jón Gunnar lætur sér ekki nægja að halda eina afmælisveislu því hátíðahöldin halda áfram á morgun.

„Félagarnir verða ræstir út í bröns á Laundromat um miðjan dag á laugardag. Þaðan verður haldið á English Pub að horfa á annaðhvort Stjörnuna eða FH tryggja sér titilinn og síðan er ferðinni heitið á efri hæðina á Austur að sjá Nelson kyrkja Kanann. Við ætlum að borða þar og hirðplötusnúðurinn minn til margra ára, Margeir Ingólfsson, þeytir skífum. Þetta verður „double trouble“,“ segir Jón Gunnar. Hann hræðist ekki að eldast.

„Ég er búinn að tala um mig í þriðju persónu í nokkur ár og kalla mig oft „gamla“. Það að verða fertugur er ekkert mál í mínum haus. Sköllóttur, gamall, fertugur karl í Kópavogi. Það er bara mantran.“

En hvað stendur upp úr á þessum fjörutíu árum?

„Ég verð að vera pínulítið væminn og segja fæðing barna minna. Ég á tvo litla gríslinga og einn á leiðinni þannig að það er að bætast í Geirdalaherinn. Svo hef ég verið blessaður með því að vinna með skemmtilegu fólki að skemmtilegum verkefnum í 25 ár.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×