Erlent

Lýðræðislegar umbætur í limbói

Freyr Bjarnason skrifar
Lýðræðissinni ögrar lögreglunni fyrir framan stjórnarráðið í Hong Kong. Í bakgrunni er hópur mótmælenda með regnhlífar en þær hafa verið eins konar táknmynd mótmælanna.
Lýðræðissinni ögrar lögreglunni fyrir framan stjórnarráðið í Hong Kong. Í bakgrunni er hópur mótmælenda með regnhlífar en þær hafa verið eins konar táknmynd mótmælanna. Fréttablaðið/AP
Hong Kong var eitt sinn bænda- og sjómannasamfélag en margt hefur breyst á undanförnum áratugum og núna er þetta kínverska sjálfsstjórnarhérað iðandi fjármálamiðstöð undir kínverskum og vestrænum áhrifum.

Hong Kong var bresk nýlenda í langan tíma, eða frá 1841 til 1997, ef undan er skilið fjögurra ára tímabil í seinni heimsstyrjöldinni þegar Japanar hernámu nýlenduna. Hong Kong varð hluti af Kína árið 1997 þegar 99 ára leigusamningur sem Bretar gerðu við kínverska Qing-keisaraveldið rann út. Fullt sjálfstæði þekkja Hong Kong-búar því ekki.

Borginni er stjórnað samkvæmt lögmálinu „eitt land, tvö kerfi“. Í því felst að Kínverjar leyfa Hong Kong-búum að stjórna sér sjálfir að mestu leyti og viðhalda efnahagslegu- og félagslegu kerfi sínu næstu fimmtíu árin. Kínversk stjórnvöld eru yfirhöfuð lítt áberandi í Hong Kong og sú hefur einmitt verið raunin í mótmælunum. Þess í stað hefur framkvæmdastjóri Hong Kong, Leung Chun-ying, alfarið séð um samskiptin við lýðræðissinna. Þau hafa ekki verið mikil en einhverjar viðræður áttu þó að hefjast í gær.

Í stjórnarskrá Hong Kong, Grunnlögunum, eru ákvæði um lýðræðislega þróun héraðsins. Þrátt fyrir þau geta kínversk stjórnvöld í höfuðborginni Peking beitt neitunarvaldi gagnvart breytingum á stjórnmálakerfi þess. Lýðræðissinnar eru mótfallnir þessu og telja pólitískar umbætur í Hong Kong ganga hægt fyrir sig.

Í fréttaskýringu á vef BBC kemur fram að kínverski kommúnistaflokkurinn eigi sérstaklega erfitt með að gera breytingar á kosningakerfi Hong Kong en eins og staðan er í dag er helmingur löggjafarþings borgarinnar ekki kosinn í beinum kosningum. Þess í stað eru það hópar hliðhollir kínverskum stjórnvöldum sem annast valið. Til að mynda er framkvæmdastjóri Hong Kong, æðsti maður borgarinnar, kosinn óbeint af kosninganefnd sem er stjórnað frá Peking.

Kínverjar hafa heitið því að leyfa almenningi að kjósa um hver muni gegna stöðu framkvæmdastjórans árið 2017 en vilja að kosninganefnd velji frambjóðendurna. Lýðræðissinnar eru ósáttir við þetta og vilja ekki velja úr handvöldum hópi frambjóðenda, hliðhollum Kínverjum. Yfirvöld þar í landi óttast að þetta gæti grafið undan valdi þeirra yfir Hong Kong og segja mótmælin vera ólögleg skrílslæti. Hafa þau varað við að áframhaldandi mótmæli geti haft slæmar afleiðingar í för með sér.

Kínverjar hafa umsjón með utanríkis- og varnarmálum Hong Kong en borgin hefur samt sinn eigin gjaldmiðil. Efnahagsmál Hong Kong hafa færst frá því að snúast um framleiðslu og í það að byggjast á þjónustu við aðra. Á svæðinu eru stórar miðstöðvar banka og annarra fyrirtækja og hafa þær malað gull fyrir Kínverja í gegnum tíðina. Á móti eru Kínverjar fjölmennasti hópur ferðamanna í Hong Kong, sem hefur skapað miklar tekjur fyrir borgina.

Enn mögulegt að afstýra harmleik

Stefán Úlfarsson hagfræðingur, sem er búsettur í Peking, segir að þrátt fyrir mótmælin gangi daglegt líf í borginni fyrir sig eins og ekkert hafi í skorist.

„Ég held samt að flestir séu meðvitaðir um það sem er að gerast í Hong Kong. En það virðist ríkja þögult samkomulag manna á milli að hafa ekki orð á því,“ segir Stefán.

Spurður hvort atburðirnir í vikunni hafi komið honum á óvart segir hann mótmæli sem þessi nánast óhugsandi á meginlandi Kína. „Hong Kong er öðruvísi. Þar hefur verið í gangi ferli er miðar að því að auka lýðræði íbúanna jafnt og þétt. Síðustu misseri hefur hins vegar komið skýrt í ljós að stjórnvöld í Peking ætla að trufla þessa þróun. Séð í þessu ljósi koma mótmælin mér ekki á óvart. Ég býst við að mótmælendur líti svo á að það sé nú eða aldrei að sporna gegn því að þeir sogist inn í hið staðnaða pólitíska umhverfi Kína.“

Stefáni þykir viðbrögð kínverskra stjórnvalda hafa verið ruglingsleg. „Annars vegar virðist vera í gangi áætlun um að bíða og vona að mótmælin fjari út af sjálfu sér. Hins vegar er stöðugt verið að senda skilaboð sem ganga í þveröfuga átt við það markmið. Yfirlýsingar um að aðgerðir mótmælenda séu ólöglegar og að aldrei verði látið undan kröfum þeirra gera lítið annað en að kynda undir víðtæka óánægju almennings. Þetta minnir um margt á það fum er einkenndi viðbrögð stjórnvalda við lýðræðishreyfingu stúdenta í Peking 1989 og endaði með ósköpum.“

Hann segir kínverska fjölmiðla ekkert fjalla um mótmælin og hvorki sé hægt að fara á Facebook né Twitter. Aðeins sé að finna stöku leiðara eða tilkynningar um afstöðu stjórnvalda til málsins og yfirleitt fylgi engar myndir með nema þær sýni mótmælin í neikvæðu ljósi.

Stefán útilokar ekki að mótmælin muni þróast svipað og í Peking 1989. „Ég tel samt enn mögulegt að afstýra harmleik. Það mun þá sennilega fela í sér einhvers konar málamiðlun sem allir aðilar geta litið á sem áfangasigur,“ segir hann.



Íbúar Hong Kong upplifa sig raddlausa

Sigríður Jónsdóttir mannfræðingur sem stundaði nám í Hong Kong frá 2002 til 2004, var stödd í borginni í ágúst síðastliðnum.

Hún segist hafa orðið vör við meiri óánægju með samfélagið á meðal íbúanna en þegar hún bjó þar á sínum tíma. „Ég heyrði að fólk var ekki sátt, bæði vegna ágangs kínverskra stjórnmálamanna og kínverskra ferðamanna,“ segir Sigríður og telur að hugarfarið hafi breyst, sérstaklega hjá ungu fólki. „Ég veit að það er mjög stór, þögull hópur af fólki sem er hlynntur kínverskri stjórn.“

Hún segist hafa fylgst með mótmælunum í gegnum vini sína í Hong Kong á Facebook þar sem þeir deila upplifun sinni. „Fólkið sem ég þekki til sem tekur þátt í mótmælunum er á milli tvítugs og þrítugs en hópurinn er mun stærri. Skólinn sem ég fór í er alþjóðlegur skóli og þessir krakkar sem hafa verið að mótmæla eru bæði alþjóðlega þenkjandi og hafa jafnvel búið erlendis í einhvern tíma.“

Sigríður telur að drifkraftur þurfi að komast í mótmælin fljótlega ef mótmælendur ætli að ná sínu fram, t.d. varðandi afsögn framkvæmdastjóra Hong Kong. „Mesta spennan í þessu var fyrstu dagana en fólk er núna að reyna að halda áfram og það getur verið flóknara. Líklegast er að það verði málamiðlun en ég held að kínversk stjórnvöld muni ekki gefa mikið eftir.“

Hong Kong er að hennar mati í skrítinni stöðu. „Þetta er frekar ungt sjálfráða svæði. Ég held að það sem er að gerast sé að þau eru að gera sér grein fyrir því hvaða vald Kína hefur yfir þeim. Þetta snýst mikið um lagasetningu og túlkanir á henni. Hverju stjórnin lofaði þegar hún fékk Hong Kong til baka. Ég held að Hong Kong upplifi sig svolítið raddlausa.“

Sigríður bætir við að margir Kínverjar fari til Hong Kong til að versla og stunda viðskipti. „Kapítalisminn verður svo gríðarlega augljós í Hong Kong. Tungumálamunurinn er mjög skýr og menningarmunurinn er svart og hvítt. Þetta brýst út í alls konar sögusögnum og til dæmis heyrði ég umræður um kínverska njósnara í Hong Kong, sem var ekki til í dæminu fyrir tíu árum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×