Erlent

Fjarlægðu vegatálma í borginni

Freyr Bjarnason skrifar
Stytta sem stúdentar bjuggu til heldur á gulri regnhlíf fyrir utan stjórnarbyggingu í Hong Kong. Stjórnvöld hafa krafist þess að lýðræðissinnar rými göturnar.
Stytta sem stúdentar bjuggu til heldur á gulri regnhlíf fyrir utan stjórnarbyggingu í Hong Kong. Stjórnvöld hafa krafist þess að lýðræðissinnar rými göturnar. Fréttablaðið/AP
Hluti lýðræðissinna í Hong Kong ákvað í gær að fjarlægja suma af þeim vegatálmum sem búið var að koma fyrir á vegum og gangstéttum í borginni. Einnig ákváðu þeir að draga úr mótmælum sínum.

Stjórnvöld í Hong Kong höfðu sagt mótmælendum að þau myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að um þrjú þúsund opinberir starfsmenn gætu komist á skrifstofur sínar í dag. Lýðræðissinnar voru ekki sammála um hvernig bregðast ætti við hótunum stjórnvalda og sumir þverneituðu að gefa eftir.

Bandalag stúdenta sem hefur staðið fyrir mótmælunum sagðist í gær ætla að hefja viðræður við stjórnvöld að nýju um lýðræðislegar umbætur í Hong Kong. Það ætlaði engu að síður að halda mótmælum sínum áfram. „Við þurfum að bíða og sjá hvort stjórnvöld standi við loforð sín,“ sagði bandalagið í yfirlýsingu sinni.

Stjórnvöld hafa tilkynnt að þau ætli að opna skóla á nýjan leik og sömuleiðis einhverjar götur. „Til að koma aftur á reglu erum við sannfærð um að við höfum getu til að grípa til nauðsynlegra úrræða,“ sagði talsmaður lögreglunnar. „Enginn almennur borgari ætti að geta valdið truflunum.“

Að sögn lögreglunnar hafa þrjátíu manns verið handteknir síðan mótmælin hófust. Hún sagðist hafa notað piparúða gegn mótmælendum á laugardaginn eftir að þeir höfðu ögrað lögregluþjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×