Innlent

Íslenska ríkið greiðir aðeins sendingarkostnaðinn af hríðskotabyssunum 150

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Jónas F. Bjartmarz
Jónas F. Bjartmarz
Embætti ríkislögreglustjóra hefur eignast 150 lítið notaðar MP5 hríðskotabyssur. Hluti þeirra, eða 35, er kominn í notkun á æfingasvæði lögreglunnar á Suðurnesjum, hinar eru enn í umsjón embættisins og verða þangað til lögreglustjórar landsins óska eftir afnotum af þeim.

„Þetta eru byssur sem stóð til að afleggja hjá lögreglu og heryfirvöldum í Noregi og þau buðust til að gefa okkur. Norðmenn voru að skipta um byssutegund og við þurfum líklega ekki að borga annað en sendingarkostnaðinn,“ segir Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá Embætti ríkislögreglustjóra.

Jón segir ekki nýtt að lögreglan búi yfir hríðskotabyssum, það hafi hún gert frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Þau hríðskotavopn, sem lögreglan átti, hafi hins vegar verið úr sér gengin og þurft að endurnýja.

Jón segist ekki vita til þess að lögreglan hafi keypt nýjar skammbyssur síðustu misserin eða önnur vopn. Menn geti séð hvaða vopn lögreglan eigi með því að rýna í skýrslu sem gerð var um stöðu lögreglunnar árið 2012.

DV sagði frá því í gær að lögreglan væri að vopnast með leynd og að brátt yrðu allar lögreglubifreiðar á Íslandi búnar MP5-hríðskotabyssum og Glock 17, hálfsjálfvirkum skammbyssum.

óvopnaðir Samkvæmt upplýsingum frá Embætti ríkislögreglustjóra eru ekki vopn í lögreglubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu.
Að sögn Jóns er ekki verið að vopna lögregluna umfram það sem verið hefur síðustu ár. Lögreglan hafi alltaf haft vopn og lögreglumenn fengið þjálfun í að nota þau. „Nú er verið að efla vopnaþjálfun samhliða handtöku og sjálfsvarnarþjálfun. Lögreglumenn þurfa að standast próf til þess að fá vopnaskírteini.“

Jón segir almennu regluna þá að vopn séu geymd á lögreglustöðvum en einstakir lögreglustjórar hafi tekið sjálfstæða ákvörðun um að hafa vopn í lögreglubifreiðum.

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki með vopn í bílum hjá sér,“ segir Jón og bendir á að sérsveit lögreglunnar sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu en hún er vopnum búin. Hið sama gildir hins vegar ekki úti á landi þar sem fjarlægðir eru miklar. Þar hafi hafi sumir lögreglustjórar ákveðið að hafa vopn í lögreglubílum. Ekki fæst uppgefið hvers konar vopn eru í lögreglubílunum en á meðan MP5-hríðskotabyssurnar eru enn í vörslu ríkislögreglustjóra eru þær ekki í bílunum.

Úlfar Lúðvíksson, sýslumaður á Ísafirði, segir að vopn séu í öllum lögreglubílum embættisins.

„Við erum ágætlega vopnum búin,“ segir Úlfar. Hann segir það hafa verið ákveðið að setja vopn í bílana af öryggissjónarmiðum, fjarlægðir í umdæminu séu miklar og það taki sérsveitina langan tíma að komast vestur komi upp alvarleg atvik í umdæminu.

„Lögreglumenn hér fá markvissa og stöðuga þjálfun í notkun skotvopna,“ segir Úlfar.

Fréttaflutningur af vopnaeign og vopnaburði lögreglunnar kom til umræðu á Alþingi í gær.

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fór fram á það við forseta Alþingis að hann gerði viðeigandi ráðstafanir til að þingfundur í dag hefjist á sérstakri umræðu um vopnavæðingu lögreglunnar.

„Það er ekki hægt að láta þennan orðróm eða fréttaflutning vera óstaðfestan,“ sagði Helgi.

Bjargey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gerði sama mál að umtalsefni og kallaði eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd. Hún vill innanríkisráðherra og ríkislögreglustjóra á fund til að svara fyrir málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×