Skoðun

Af fötluðu fólki í Hörpu

Örnólfur Hall skrifar
Mörg dæmi eru þess að fötluðu fólki finnist því vera mismunað hvað varðar aðstöðu og aðgengi í Hörpu og hafi það á tilfinningunni að það sé annars flokks gestir þar. Því finnst t.d. að það sé aukahópur í Eldborgarsal og því er gert að nota þar sérinngang. Það eiga hins vegar allir gestir, fatlaðir og ófatlaðir, að geta farið inn um sama inngang. Fatlað fólk á að geta farið og verið sem víðast og ekki þurfa að slíta sig frá samferðafólki sínu, sínum félögum og ástvinum eða verða að fara á allt aðra staði en aðrir.

Hjólastólafólki er beinlínis ætlað að sitja í hallanum í Eldborgarsal sem það segir mjög óþægilegt og þreytandi. Jafnframt er hér bent á að: 1)Hjólastólanotendur og fólk með skerta göngugetu kemst ekki upp á galleríin vegna stiganna sem að þeim liggja.

2)Skábrautin að svokölluðum Björtu loftum er ólögleg samkvæmt viðurkenndum, alþjóðlegum byggingarreglugerðum með of miklum halla fyrir hjólastóla. Hann ætti að vera 1:20 en er 1,5:20. Eins eiga að vera þar hvíldarpallar með að lágmarki 12 metra millibili og því a.m.k. tveir á þessari skábraut í húsinu. 3)Salernum er ábótavant m.t.t. aðstöðu. Úttektir byggingaryfirvalda virðast hvergi aðgengilegar – ef þær eru þá til! Enginn virðist bera ábyrgð á úttektum í Hörpu og t.d. finnst ekki úttektarskýrsla um aðstöðu og aðgengi fatlaðs fólks í eða við Hörpu (eða þá á Hörpuhjúp o.fl.) og vísar hvert embættið á annað í þeim efnum. Aðspurt bendir byggingarfulltrúaembættið á tvær stórar verkfræðistofur sem hins vegar kannast ekkert við að hafa haft með úttektir af þessum toga þar að gera.

Ný Mannvirkjastofnun segir í svari við fyrirspurn: „Samkvæmt lögum hefur Mannvirkjastofnun ekki hlutverki að gegna varðandi úttektir sem þessar. Ábyrgð á úttektum bera annars vegar hönnuður og framkvæmdaaðili og hins vegar byggingarfulltrúi“.

Að frumkvæði fv. menntamálaráðherra áttum við tveir gagnrýnir kollegar fund um ýmislegt um „framkvæmdina“ og m.a. úttektarmál Hörpu með fv. stjórnarformanni o.fl. og var okkur þá vísað á byggingarfulltrúaembættið í því sambandi. En það vísaði frá sér eins og áður greinir. Enginn virðist sem sagt bera ábyrgð á Hörpunni með tilliti til allrar hönnunar – eða „smíði“ hennar!




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×