Handbolti

Hafnarfjarðarliðin mætast í níunda sinn á árinu 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Óli Magnússon og félagar í FH hafa bara unnið tvo af átta leikjum ársins á móti Haukum.
Magnús Óli Magnússon og félagar í FH hafa bara unnið tvo af átta leikjum ársins á móti Haukum. Vísir/Daníel
Stórleikur kvöldsins í Olís-deild karla er heimsókn FH-inga til Hauka í Schenker-höllina á Ásvöllum. Leikur Hafnarfjarðarliðanna hefst klukkan 20.00. Það er jafnan mikil hátíð í Hafnarfirði í kringum leiki liðanna enda erfitt að finna meiri ríg milli félaga á Íslandi.

Árið 2014 hefur þegar boðið upp á metframboð af viðureignum Hauka og FH sem mætast í kvöld í sínum níunda mótsleik á árinu. Auk deildarleikjanna og leiks í árlegu Hafnarfjarðarmóti (ekki talinn með í fyrrnefndri tölu) fór undanúrslitaviðureign liðanna í úrslitakeppninni í oddaleik og liðin mættust einnig í undanúrslitum bikarsins.

Haukar steinlágu í síðasta leik á Akureyri, en FH-ingarnir eru fjórum stigum og þremur sætum á undan nágrönnum sínum í töflunni.

Hvort það hjálpar FH-ingum eitthvað í kvöld verður að koma í ljós en þeir hvítu og svörtu eiga margar slæmar minningar frá Haukaleikjum ársins.

Haukaliðið er nefnilega með mikla yfirburði í leikjum liðanna á árinu þar sem það hefur unnið fimm af átta leikjum þar af fjóra af fimm síðustu leikjum (Hafnarfjarðarmótið talið með) eftir að FH komst í 2-0 í undanúrslitaeinvígi liðanna í úrslitakeppninni síðasta vor. Haukarnir unnu þá þrjá leiki í röð og sendu FH-liðið í sumarfrí.

FH-ingar unnu hinsvegar síðasta leik liðanna með einu marki í Kaplakrika í fyrri deildarleik liðanna á þessu tímabili en hann fór fram í lok september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×