Íslenski boltinn

Sekt ÍBV hefði verið fimm sinnum lægri fyrir ári

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stuðningsmaður Keflavíkur gerðist sekur um kynþáttaníð í garð Tonnys Mawejje í fyrra.
Stuðningsmaður Keflavíkur gerðist sekur um kynþáttaníð í garð Tonnys Mawejje í fyrra. vísir/daníel
Eins og greint var frá fyrr í dag fékk ÍBV 150.000 króna sekt fyrir kynþáttaníð stuðningsmanns félagsins í garð Farids Zato, miðjumanns KR, í bikarleik liðanna 31. júlí s.l.

Þetta er fimmfallt hærri upphæð en t.a.m. þegar stuðningsmenn Fjölnis gerðust sekir um kynþáttaníð í garð AndrewsMwesigwa í leik Fjölnis og ÍBV á Fjölnisvelli í 1. deild karla sumarið 2007. Sú sekt hljóðaði upp á 30 þúsund krónur.

Keflvíkingar fengu svo sömu upphæð í sekt þegar stuðningsmaður félagsins beitti TonnyMawejje, þáverandi leikmanni ÍBV, kynþáttaníði í leik liðanna í september á síðasta tímabili, þ.e. fyrir tæplega ári.

Í heildina borguðu knattspyrnudeildir mótherja ÍBV 60.000 krónur fyrir þessi tvö atvik, en Eyjamenn greiða nær þrefalda þá upphæð fyrir atvikið í Borgunarbikarnum í lok júlí.

Sektin sem ÍBV fékk að þessu sinni er vafalítið sú hæsta í sögu KSÍ, þó sambandið hafi ekki viljað staðfesta það við Vísi að svo stöddu.

Víðismenn í Garði fengu einnig þunga refsingu fyrr í sumar þegar leikmaður liðsins gerðist sekur um kynþáttaníð í garð mótherja síns. Leikmaðurinn fékk fimm leikja bann og var knattspyrnudeild Víðis sektuð um 100.000 krónur.

Þessi hækkun sekta kemur til vegna nýs ákvæðis í agareglum KSÍ, 16. grein, en hún var sett inn vegna tilskipunar Alþjóða knattspyrnusambandsins fyrr á þessu ári. Nýja ákvæðið tekur á mismunun og á að leggja áherslu á að taka fast á hvers kyns mismunun eða fordómum.

Ákvæðið er þýðing á ákvæði í agareglugerð FIFA sem öllum knattspyrnusamböndum innan FIFA ber að taka upp. Öllum aðildarfélögum KSÍ var sent dreifibréf um tilkomu nýja ákvæðisins og hvaða viðurlög það hefði í för með sér.

Áður var hámarkssekt KSÍ 30.000 krónur, en nú er lágmarkssektin 100.000 krónur fyrir mismunun. Af því má sjá að verið er að taka hart á þessum málum.

Eyjamenn fögnuðu því í yfirlýsingu sinni vegna málsins hversu hart KSÍ tæki á kynþáttaníði í ljósi þess sem þeir sjálfir hafa lent í. Þeir una ákvörðun KSÍ og hafa sett stuðningsmanninn sem kom félaginu í þessi vandræði í ótímabundið heimaleikjabann.


Tengdar fréttir

Pepsi-mörkin | 15. þáttur

Styttri útgáfa af 15. þætti Pepsi-markanna þar sem fimmtánda umferð Pepsi-deildarinnar var gerð upp.

Meintur níðingur í heimaleikjabann í Eyjum

Óskar Örn Ólafsson, formaður ÍBV, segir að einstaklingur, sem grunaður er um kynþáttaníð í garð KR-ingsins Farid Zato í leik félaganna 31. júlí síðastliðinn, hafi ekki mætt á leik liðsins gegn FH á sunnudaginn. Ætla má af orðum Óskars að einstaklingurinn hafi verið í heimaleikjabanni vegna háttalags síns en Óskar segir að frekari aðgerðir í málinu séu á ís þar til aganefnd KSÍ hefur úrskurðað í málinu seinna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×