Skoðun

Tveir milljarðar í nýja sjúklingaskatta

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Stjórnarandstaðan hefur sameinast um breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það er tilraun til að stöðva nokkrar verstu tillögur ríkisstjórnarinnar og meirihluta fjárlaganefndar sem margar hverjar vega að grunngildum samfélagsins sem áralöng sátt hefur ríkt um.

Nemendur 25 ára og eldri eiga að halda rétti sínum til að stunda nám í framhaldsskólum, bæta á kjör öryrkja og eldri borgara, ekki á að ganga á rétt atvinnulausra til bóta, útvarpsgjald á að vera óskert og renna allt til RÚV eins og lög gera ráð fyrir. Í tillögunum er líka að finna mörg önnur réttlætis- og mannréttindamál. Einnig eru tillögur um framkvæmdir á ferðamannastöðum og til annarrar atvinnuuppbyggingar.

Í tillögum stjórnarandstöðunnar er lagt til að Landspítalinn fái fjármagn til að sinna nauðsynlegu viðhaldi á húsnæði. Lagt er til að rekstur spítalans verði styrktur svo hægt sé að vinna á biðlistum sem lengjast enn vegna læknaverkfalls og að komið verði til móts við vanda BUGL. Ef fjárlög taka ekki breytingum nú í desember þá mun kostnaðarþátttaka sjúklinga hafa aukist um 1.900 milljónir króna í tíð sitjandi ríkisstjórnar og það án þess að nein stefnumarkandi umræða hafi farið fram. Þetta er gert þrátt fyrir að næstum 4% landsmanna hafi neitað sér um heilbrigðisþjónustu vegna mikils kostnaðar árið 2012. Sambærilegt hlutfall á Norðurlöndum er nærri núlli og þangað eigum við að stefna.

Leynt og ljóst er verið að færa kostnað frá ríkinu til sjúklinga. Það er ekki gert í nauðvörn til að ná mikilvægu markmiði um hallalaus fjárlög. Þetta gerist núna þegar staða ríkissjóðs batnar ár frá ári og meðan að ríkisstjórnin tekur ákvarðanir sem leiða til minni tekna af auðlindum landsins. Þessa þróun þarf að stöðva strax. Annars fylgir enn meiri ójöfnuður og misskipting í kjölfarið.

Náum samstöðu um tillögu sameinaðrar stjórnarandstöðu um að hækka ekki gjöld á sjúklinga og tryggjum heilbrigðisþjónustu allra óháð efnahag.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×