Innlent

Eftirlíkingar í ráðhúsinu gætu kostað borgina yfir 100 milljónir

Ingvar Haraldsson skrifar
Alex Colding, svæðisstjóri Cassina á Norðurlöndunum, telur alveg ljóst að húsgögnin í ráðhúsinu séu eftirlíkingar enda hafi hann sjálfur gengið úr skugga um það þegar hann heimsótti Ísland í apríl á þessu ári.
Alex Colding, svæðisstjóri Cassina á Norðurlöndunum, telur alveg ljóst að húsgögnin í ráðhúsinu séu eftirlíkingar enda hafi hann sjálfur gengið úr skugga um það þegar hann heimsótti Ísland í apríl á þessu ári.
Ítalski húsgagnframleiðandinn Cassina hefur farið fram á við Reykjavíkurborg að eftirlíkingum af stólum og sófum eftir franska hönnuðinn Le Corbusier sem er að finna í Ráðhúsi Reykjavíkur verði fargað og frumhönnun verði keypt í staðinn.

Verði Reykjavíkurborg ekki við kröfunni mun Cassina fara fram á skaðabætur af hendi borgarinnar vegna þess skaða sem eftirlíkingarnar hafa valdið að sögn Alex Colding, svæðisstjóra Cassina á Norðurlöndunum.

„Við förum fram á að borgin kaupi frumhönnun til að sýna fram á að húsgögnin hafi verið keypt í góðri trú,“ segir Alex.

Húsgögnin voru keypt fyrir opnun ráðhússins árið 1992 og hafa verið í notkun alla tíð síðan. Skúli Rósantsson, eigandi húsgagnaverslunarinnar Casa, söluaðila Cassina á Íslandi, segir að eftirlíkingarnar í ráðhúsinu séu sæti fyrir um 150 manns. Frumhönnun á sambærilegum stólum kostar um 850 þúsund krónur og frumhönnun á sófunum kostar um 1,8 milljónir króna. Kostnaður Reykjavíkurborgar við að kaupa frumhönnun gæti því farið yfir hundrað milljónir.

Alex Colding, yfirmaður Cassina á Norðurlöndunum.
Skúli er ósáttur við að eftirlíkingar sé að finna í ráðhúsinu. „Þegar menn eru með svona daprar og lélegar eftirlíkingar er þetta rosaleg eyðilegging fyrir merkið. Það þýðir ekkert að byggja flott ráðhús og vera með eitthvað gervi í því,“ segir Skúli.

Segir eftirlíkingar einnig að finna hjá RÚV

Hann bætir við að eftirlíkingar af húsgögnum Le Corbusier sé einnig að finna í Ríkisútvarpinu og sjáist reglulega í sjónvarpsútsendingum. Næsta skref sé að fara fram með sambærilega kröfu við Ríkisútvarpið og Reykjavíkurborg er nú krafin um.

Alex telur alveg ljóst að húsgögnin í ráðhúsinu séu eftirlíkingar enda hafi hann sjálfur gengið úr skugga um það þegar hann heimsótti Ísland í apríl á þessu ári.

„Frumhönnun er merkt með raðnúmeri í burðargrind húsgagnanna sem var ekki að finna í stólunum og sófunum í ráðhúsinu,“ segir Alex.

Krafa Cassina var tekin fyrir í borgarráði á fimmtudag sem vísaði kröfunni áfram á borgarlögmann sem mun taka hana til skoðunar fyrir hönd Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×