Innlent

Smíði nýrrar brúar á Jökulsá í óvissu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vegamálastjóri segir líklegt að beðið verði með smíði nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum meðan óvissa er um eldsumbrot og jökulhlaup. Áformað er að bjóða verkið út í haust með það í huga að framkvæmdir geti hafist í vetur. 

Brúin á hringveginum við Grímsstaði á Fjöllum er orðin 67 ára gömul, var reist árið 1947, og er elst þeirra þriggja brúa sem liggja yfir Jökulsá. Hún er einbreið og með skert burðarþol og því er ný brú í bígerð, sem þetta tölvugerða myndband frá Vegagerðinni sýnir.

Nýja brúin verður 230 metra löng og er áætlað hún kosti með tengivegum um einn miljarð króna. Verði eldgos í Dyngjujökli er óttast að stórt hlaup komi þarna niður. En verður brúarsmíðinni slegið á frest, í ljósi óvissunar sem Bárðarbunga veldur?

Stefnt hefur verið að því að nýja brúin yrði tekin í notkun á árinu 2016.Mynd/Vegagerðin.
„Það er nú ekkert sem við höfum rætt ennþá. En mér finnst það nú líklegt, ef þetta eru einhverjir mánuðir í þessari óvissu,” segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. 

„Við höfum hannað þessa nýju brú með tilliti til þess að þarna gætu orðið flóð, - kannski ekki endilega flóð í kjölfar eldgoss, - en hún er hönnuð þannig að vatnið myndi að töluverði leyti þá fara framhjá nýju brúnni. En þetta er atriði sem við myndum náttúrlega vissulega endurskoða núna í kjölfar þessara atburða, ég tala nú ekki um ef eitthvað myndi nú gerast í Jökulsánni."

Nýja brúin á að koma um hálfum kílómetra ofar í Jökulsá.Mynd/Vegagerðin.

Tengdar fréttir

Vegir verða rofnir komi til flóðs

Vegir við brýrnar yfir Jökulsá á Fjöllum verða rofnir komi til flóðs. Tæki eru til staðar í Öxarfirði og tæki eru á leiðinni að brúnni við Grímsstaði.

Bárðarbunga gæti valdið hamförum við Dettifoss

Almannavarnir lýstu í dag yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu sem staðið hefur yfir í Bárðarbungu frá því í nótt. Kvika er talin vera á hreyfingu í eldstöðinni.

Brýrnar gætu sópast burt og Dettifoss sorfist niður

Hrinan í Bárðarbungu er mjög öflug og full ástæða til að gera ráð fyrir eldgosi, að mati sérfræðings Veðurstofu Íslands. Viðvörun gagnvart alþjóðaflugi var í dag sett á næstefsta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×