Innlent

Vill banna reykingar á almannafæri

Ákvæði um reykingabann á opnum svæðum í Kópavogi er í nýrri lögreglusamþykkt og er til umræðu.
Ákvæði um reykingabann á opnum svæðum í Kópavogi er í nýrri lögreglusamþykkt og er til umræðu.
Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi, vill banna reykingar á almannafæri í Kópavogi. Bæjarstjóri telur alltof langt gengið.

Ákvæði um reykingabann á opnum svæðum í Kópavogi er í nýrri lögreglusamþykkt og er til umræðu í bæjarstjórn Kópavogs.

Ómar Stefánsson, leiðtogi Framsóknarmanna, stendur fyrir ákvæðinu og hann er spurður hvort þetta þýði í raun að reykingar séu bannaðar í Kópavogi

„Það verður bannað að reykja á opnum svæðum, göngustígum og við opinberar byggingar sem tilheyra Kópavogi,“ segir Ómar.

Þarna er lengra gengið en áður hefur þekkst á Íslandi varðandi reykingabann. Ýmsar spurningar vakna svo sem hvort þetta kalli ekki á aukna löggæslu?

„Nei, það er ekki tilgangurinn með þessu. Þetta snýst fyrst og fremst um að fólk sýni tillitssemi. Þetta byggir á lögum um tóbaksvarnir og í 1. grein segir alveg skýrt að virða skuli rétt hvers manns að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað af tóbaksreyk af völdum annarra.“

Ómar viðurkennir fúslega að vera fanatískur andreykingamaður. Og ekki er eining um málið innan bæjarstjórnar Kópavogs. 

„Mér finnst þessi tillaga ganga of langt, satt best að segja,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, Kópavogs.

„Ég skil hins vegar markmiðið hjá Ómari, honum er illa við að fólk sé að reykja í kringum annað fólk og ég tala nú ekki um þar sem börn eru.“

Ómar segir að hann telji hæpið að tillaga sín verði samþykkt, af því að það eru svo margir í bæjarstjórninni sem reykja.

„Ég veit ekki hvað menn láta það trufla sig,“ segir Ármann. „Óneitanlega er sérstakt að ætla að sérhagsmunir en ekki prinsipp ráði
för í málum sem þessu. En, vissulega er það skondið að þegar menn tóku fundarhlé í bæjarstjórn þegar verið var að ræða þetta mál, að þá voru nokkrir sem fóru út og fengu sér smók. Ef lögreglusamþykktin hefði verið komin í gegn, þá hefðu þeir ekki mátt gera það.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×