Innlent

Flugmenn í verkfall

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur boðað ótímabundið yfirvinnubann flugmanna Icelandair ehf. sem mun hefjast hinn 9. maí klukkan sex að morgni.

Gripið verður til stuttra verkfalla á þriggja vikna tímabili, náist samningar ekki.

Þrjár tólf klukkustunda vinnustöðvanir hafa verið boðaðar hinn 9. maí, 16. maí og 20. maí.

Þá verður tveggja daga vinnustöðvun frá klukkan sex að morgni 23. maí til klukkan 6 að morgni 25. maí.  Í framhaldinu verður vinnustöðvun frá klukkan sex að morgni 30. maí til klukkan sex 3. júní.

Náist ekki samkomulag milli félagsins og FÍA mun flugáætlun félagsins raskast vegna aðgerðanna.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði óvíst hvaða áhrif aðgerðirnar muni hafa á afkomu fyrirtækisins en segir að vissulega muni þetta hafa mikil áhrif. „Við erum nýbúin að fá tilkynningu um vinnustöðvunina og höfum því ekki lagt á mat á hversu mikil áhrif þetta mun hafa, en það liggur ljóst fyrir að ef félagið leggur niður störf og ekkert verður flogið þá mun þetta hafa mikil áhrif,“ sagði Björgólfur í samtali við Vísi.

Atkvæðagreiðslan fór fram í gær og var tillagan samþykkt með 295 atkvæðum. Enginn var á móti en sex sátu hjá. Á kjörskrá voru 330 en 301 greiddi atkvæði. Kosningaþátttaka var því rúm 91%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×