Erlent

Reyna að bjarga Arturo úr hitanum í Argentínu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ísbjörninn Arturo á oft erfitt með að ráða við hinn mikla hita sem getur myndast í búri hans.
Ísbjörninn Arturo á oft erfitt með að ráða við hinn mikla hita sem getur myndast í búri hans.
Er þetta daprasta dýr í heimi?

Myndir af ísbirninum Arturo hafa fengið töluverða dreifingu á undanförnum vikum en hann hefur búið í Mendoza dýragarðinum í Argentínu undanfarin tuttugu ár. 

Þar fer hitinn reglulega yfir 40 gráður en laugin í búri Arturo er einungis um 40 sentímetra djúp og starfsfólk í garðinum þarf að halda henni kaldri með því að varpa stærðarinnar ísmolum í hana með reglulegu millibili.

Eftir að vinur Arturos til margra ára, birnan Pelusa, lést fyrir tveimur árum hefur Arturo verið viti sínu fjær af sorg og hefur geðheilsu hans hrakað mikið á síðustu misserum. Dýraverndunarsinnar hafa mótmælt vistarverum hans harðlega sem þeir telja ýta enn fremur undir hrakandi geðheilsu hans.

160 þúsund vildarvinir Arturos stóðu í fyrra fyrir undirskriftasöfnun til að þrýsta á stjórnendur dýragarðsins að flytja ísbjörninn á verndarsvæði fyrir hans líka í Kanada. Þar hefði Arturo fengið að eyða síðustu ævidögunum í loftslagi sem ísbirnir eiga að venjast en talið var að hinn aldraði Arturo hefði ekki lifað ferðalagið af og því var það látið kyrrt liggja.

Meðal líftími ísbjarna er um 30 ár – Arturo er 29 ára.

Dýravinir hafa þó ekki látið deigan síga og halda áfram uppi kröfum sínum á Facebook og á undirskrifasíðum sem sumum er beint að de Kirchner, forseta Argentínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×