Enski boltinn

Varð heimsmeistari tveimur árum eftir að Everton leysti hann undan samningi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Shkodran Mustafi og Cristoph Kramer voru sáttir í leikslok.
Shkodran Mustafi og Cristoph Kramer voru sáttir í leikslok. Vísir/Getty
Shkodran Mustafi kom nokkuð óvænt inn í þýska landsliðið fyrir Heimsmeistaramótið þegar Marco Reus meiddist en aðeins tvö ár eru frá því að Everton leysti hann undan samningi.

Mustafi lék þrjá leiki á mótinu áður en hann meiddist í leiknum gegn Alsír í 16-liða úrslitunum. Í dag er hann heimsmeistari en aðeins tvö ár eru síðan Everton leysti hann undan samningi og hann gekk til liðs við Sampdoria sem var þá í ítölsku B-deildinni.

„Ég vissi að þegar ég var hjá Everton þá þurfti ég að taka næsta skref og fá að spila meira. Ég bað Moyes um að leysa mig undan samningi og félagið varð að beiðni minni. Ég mun alltaf muna eftir því, þeir sögðu að þeir vildu allt það besta fyrir leikmennina og sýndu mér fullan skilning.“

Mustafi viðurkenndi að hann ætti erfitt með að lýsa tilfinningunni að taka við verðlaunum.

„Ég einfaldlega veit ekki hvaða lýsingarorð ná yfir þetta. Ég er ungur að árum og það er erfitt að útskýra það sem gerðist inn á vellinum. Þetta eru búnar að vera ótrúlegar vikur, allt frá því að vera valinn seint í hópinn og að því að fá að lyfta bikarnum,“ sagði Mustafi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×