Erlent

NASA hefur undirbúning að ferðum manna til Mars

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Allt fór eins og til var ætlast þegar Orion var skotið á loft frá Canaveral-höfða í gær.
Allt fór eins og til var ætlast þegar Orion var skotið á loft frá Canaveral-höfða í gær. Vísir/AP
Charles Bolden, yfirmaður hjá NASA, sagði geimskotið í gær marka upphafið að nýju tímabili langferða út í geiminn. Risinn væri „fyrsti dagur Marstímaskeiðsins“.

Bandaríska geimferðastofnunin NASA skaut geimfarinu Orion út í geiminn snemma morguns, en ferðin var stutt því fjórum og hálfum klukkutíma síðar hafnaði farið í Kyrrahafinu skammt vestur af Mexíkóströnd Kaliforníuskaga.

„Mjög spennandi,“ sagði Mark Geyer, sem hafði umsjón með geimskotinu. „Við eigum samt enn langt í land.“

Um þessar mundir eru 42 ár síðan NASA sendi síðast út í geiminn mannað geimfar til tunglsins. Það var geimfarið Apollo 17 sem skotið var á loft í desember árið 1972.

Eftir það hafa geimfarar ekki farið lengra en á braut umhverfis jörðu. Þrjú ár eru svo síðan NASA hætti að senda á loft geimskutlurnar, sem meðal annars gegndu því hlutverki að flytja geimfara til alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Tilraunaskotið í gær var gert til undirbúnings mönnuðum geimferðum lengra út í geiminn á ný. Smíði næsta Orion-geimfars er þegar hafin hjá Lockheed Martin-verksmiðjunum. Stefnt er að því að fjöldi slíkra geimfara verði smíðaður á næstu árum, og á endanum vonast NASA til þess að geta sent menn alla leið til reikistjörnunnar Mars með einu slíku farartæki.

Einnig á að vera hægt að nota þetta geimfar til að senda menn til að kanna smástirni af ýmsu tagi langt úti í geimnum. Ekki er þó reiknað með að senda menn út í geiminn með Orion-fari fyrr en árið 2021.

Upphaflega átti að skjóta farinu á loft á fimmtudaginn, en fresta þurfti því vegna veðurs og tæknilegra vandkvæða. Allt gekk þó að óskum í gær.

Andrúmsloftið við Kennedy-geimferðastöðina á Canaveral-höfða í gær minnti töluvert á fyrri tíma þegar geimskutlum var skotið á loft. Fjöldi fólks flykktist að til að fylgjast með skotinu.

„Það er orðið dálítið síðan við gátum skotið á loft einhverju af þessari stærðargráðu,“ segir Chris Tarkinton, einn þeirra sem stóðu og horfðu á.


Tengdar fréttir

Marsflaugin fer í sitt fyrsta reynsluflug

Geimskipið Orion, sem hannað er til þess að koma mönnum til plánetunnar Mars, fer í sitt fyrsta reynsluflug í hádeginu í dag. Það er NASA sem heldur úti verkefninu í samvinnu við flugvélaframleiðandann Lockheed Martin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×