Þetta er talið eitt mannskæðasta slys í sögu Everest.
Þrír eru alvarlega slasaðir en fimmtíu manns voru í hópi leiðsögumanna sem varð fyrir flóðinu.
Allir hinir látnu voru Sherpar og sérfræðingar á Everest. Hópurinn var að fara með vistir upp á fjallið; tjöld, reipi og mat, til að undirbúa aðalklifurtímabilið sem hefst á næstu dögum. Hópurinn lagði snemma af stað í glampandi sólskini.
Búið er að bjarga að minnsta kosti sjö manns úr snjóflóðinu. Þyrlur aðstoða við björgunina.

Vilborg Arna skrifaði á Facebook-síðu sína að hún væri óhult og kom þeim skilaboðum áfram til þeirra sem sjá um heimasíðuna ingoax.is að Ingólfur væri einnig óhultur.
Saga Garðarsdóttir leikkona var með Ingólfi í för og dvaldi í grunnbúðunum fyrir skemmstu. Hún er komin aftur til byggða.
Alls hafa rúmlega 300 látið lífið á Everest frá því Sir Edmund Hillary og Tenzing Norgay klifu fjallið fyrstir manna árið 1953.
Mannskæðasta slysið á Everest fyrir snjóflóðið í morgun átti sér stað árið 1996. Þá létust átta manns í hrikalegum stormi.
Slysið í morgun þykir undirstrika hættuna sem Sherpar ganga í gegnum á meðan þeir þjónusta þá fjallgöngumenn sem reyna að ná toppi Everest á ári hverju.
