Skoðun

Viðhald Hörpu – 100,2 milljónir frá upphafi!

Örnólfur Hall skrifar
Nýlega barst sú frétt að kostnaður við viðhald á Hörpu frá 2011 til mars 2014 næmi 56 milljónum (RÚV 15/5). Hingað til hefur verið vonlaust að fá eitthvað upp á borðið varðandi sundurliðaðan Hörpukostnað og margt er enn hulið.

Það kom hins vegar ekki fram í fréttinni að í fjárlögum 2011 (02-969/6.23) eru 44,2 milljónir vegna viðhalds Hörpu. Sem sagt 44,2 milljónir (fyrir 2011) auk 56 milljóna eftir 2011.

Um 100,2 milljónir eru því komnar í viðhaldskostnað frá upphafi vegna Hörpu sem er mjög líklega Íslandsmet í viðhaldi nýrrar opinberrar byggingar.

Aldrei hafa Hörpuskuldarar fengið að sjá uppgjörið á gallaða suðurveggnum („stuðla“vegg nr. 1) sem var rifinn niður vegna hættu á hruni og sigldi síðan sem ryðtært brotajárn til Spánar.

Sagt var að Kínverjar myndu borga skaðann að langmestu leyti og verktakar að einhverjum hluta, en aldrei var getið um þann kostnað sem lenti á skattgreiðendum.

En í svari staðgengils menntamálaráðherra (17/10/2011), við fyrirspurn þingmanns (M.Á. 04/10/2011), var talað um kostnað við endurgerð og uppsetningu stálvirkis fyrir glerhjúp og hlutdeild verkkaupa (ríkis og borgar) í þeim kostnaði.

Fróðlegt væri fyrir skattgreiðendur og Hörpuskuldara að sjá þessa reikninga.

Það hefur aldrei fengist uppgefinn óupplýstur heildarkostnaður Hörpu (A-Ö). Það er löngu tímabært að þessi kostnaðarmál verði rædd opinberlega og ekki á „málheftu“ Hörpu-málþingi eins og síðast.

Örfá dæmi um kostnaðarþætti sem vantar svör við:

1)Hvað kostaði Hörpulóðin öll og að gera hana byggingarhæfa? 2)Hvað kostaði jarðvinnan og niðurrif bygginga á svæðinu? 3)Hvað kostuðu umhverfisframkvæmdir vegna Hörpu? 4)Hvað kostuðu gatnatengingarnar? 5)Hvað kostuðu viðbótarframkvæmdir inni? 6)Hvað kostaði glerhjúpurinn einn og sér? 7)Hvað fékk aðalhönnuður hans fyrir hönnunina? 8)Hvað fengu verkfræðingar, „sérfræðingar“ o.fl. fyrir? 9)Hver eru lóðar- og gatnagerðargjöldin? 10)Hver var beinn og óbeinn kostnaður okkar vegna fyrri ónýta suðurveggsins? 11)Hver er fjármagnskostnaður Hörpu frá 2009 til dagsins í dag? 12)Hvað kostuðu okkur „sérstöku“ Hörpufélögin átta? 13)Hvað hefur árlegt meðlag skattgreiðenda og Hörpuskuldara með henni blásið mikið út síðustu árin (var sagt í byrjun 1 milljarður)? Svona má áfram telja.

NB: það er þarft mál að Ríkisendurskoðun eða einhver annar óvilhallur aðili geri upp og upplýsi allan byggingarkostnað Hörpu (A-Ö) og annan uppsafnaðan kostnað.

Til upplýsinga:

Heimildir: Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis:

Fjárlög 2011 – Til viðhalds menningarstofnana:

Viðhald: 6.23 Tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð í Reykjavík … 44,2 milljónir




Skoðun

Sjá meira


×