Innlent

Miklar skemmdir á leiðum í Gufuneskirkjugarði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Keyrt var yfir leiði í Gufuneskirkjugarði með tilheyrandi skemmdum fyrir jól og um hátíðarnar. Halldóra Ólafsdóttir sem kom í Gufuneskirkjugarð síðastliðinn sunnudag sá hvar bíll hafði verið skilinn eftir á nokkrum leiðum og segir að aðkoman hafi verið hræðileg.

„Bíllinn var þarna alveg utan í einum krossinum og maður fann alveg hitalykt af honum. Við sáum engan ökumann enda var greinilegt að það var svolítið síðan að bíllinn hafði verið skilinn þarna eftir. Það var svo búið að rífa aftara dekkið bílstjóramegin og hálfpartinn affelga það. Það var búið að spóla þarna og greinilegt að mikið hefur gengið á,“ segir Halldóra í samtali við Vísi.

Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur, segir að sér sé kunnugt um tvö atvik, annað á Þorláksmessu og hitt sem hafi annað hvort verið í gær eða á aðfangadag.

„Í fyrra skiptið virðist sem einhver hafi fest bílinn og spólað honum niður. Í seinna skiptið er bíl ekið eftir leiðarröðinni. Alls virðist sem um 15 leiði hafi skemmst,“ segir Þórsteinn.

Hann segir að málið verði kært eftir helgi og ef að bílstjórarnir gefi sig ekki fram muni fara fram rannsókn hjá lögreglu líkt og um sakamál sé að ræða.

„Hér er um helgispjöll að ræða og auðvitað verulega mikið tilfinningatjón fyrir aðstandendur.“

Mynd/Helen Sif
Mynd/Halldóra Ólafsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×