Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er í 34. sæti á heimslista FIFA sem var gefinn út í morgun. Liðið hefur aldrei verið ofar síðan listinn var fyrst gefinn út árið 1993.
Gamla metið var sett árið 1994 er Ísland komst upp í 37. sæti en það lék þá undir stjórn Ásgeirs Elíassonar. Núverandi þjálfarar, Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, hafa náð frábærum árangri með liðið.
Ísland fer upp um tólf sæti frá síðasta lista eftir 3-0 sigurinn á Tyrkjum og fer þar með upp fyrir þjóðir eins og Nígeríu, Tyrkland, Austurríki, Slóvakíu, Kamerún og Japan.
Ísland er nú í 22. sæti meðal 54 Evróuþjóða á listanum en liðið mætir næst Lettlandi á útivelli þann 10. október. Lettar eru í 99. sæti heimslistans og í 42. sæti meðal Evrópuþjóða.
Þýskaland og Argentína eru í efstu tveimur sætunum sem fyrr en Kólumbía hopppar upp fyrir Holland sem er nú í fjórða sæti. England er í átjánda sæti listans.
Ísland aldrei ofar á styrkleikalistanum
Tengdar fréttir
Miðasala á leikinn gegn Hollandi hefst í dag
Stórlið Hollands kemur hingað til lands mánudaginn 13. október.