Innlent

Ferðir seldar í lokað friðland

Svavar Hávarðsson skrifar
Að fjallabaki.
Að fjallabaki. Mynd/Umhverfisstofnun
Akstursbann inn í Friðland að Fjallabaki er virt að vettugi þrátt fyrir lokanir og upplýsingagjöf.

Gróðurskemmdir vegna utanvegaaksturs eru viðvarandi vandamál. Fyrirtæki auglýsa og selja ferðir á ökutækjum inn á svæðið þrátt fyrir lögboðið bann.

Umhverfisstofnun birti í gær á Facebook-síðu friðlandsins yfirlýsingu þar sem segir að að gefnu tilefni minni svæðalandvörður á Suðurlandi á að Friðland að Fjallabaki er nú lokað fyrir vélknúinni umferð.

„Sárt er til þess að vita að menn vanvirði þessa lokun, og selji jafnvel ferðir inn á svæðið. Slíkar ferðir leiða iðulega til aksturs utan vega, sem í öllum tilfellum er lögbrot,“ segir þar.

Ingibjörg Eiríksdóttir
Ingibjörg Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, sem þar hélt á penna ætlar það engum að vinna skemmdir viljandi á sérstæðri náttúru svæðisins og líklega við fáa aðila að sakast. Aðstæður hljóti þó að vera öllum ljósar sem á annað borð þekkja til. Hún segir að gróðurskemmdir á svæðinu sé í sumum tilfellum hægt að laga, en það eigi ekki alltaf við. 

„Sumt af þessu er ekki hægt að laga og tekur ár eða áratugi að jafna sig, og það er vandinn sem við erum að glíma við ár eftir ár,“ segir Ingibjörg sem hefur gert lögreglunni á Hvolsvelli viðvart um hvers kyns er. 

Hún bætir við að á stuttum tíma í gær hafi hún með stuttri leit á netinu fundið sjö heimasíður fyrirtækja þar sem verið var að selja ferðir inn í Landmannalaugar ýmist allt árið eða frá 1. júní; allt á þeim tíma þegar er lokað,“ segir Ingibjörg.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að í kjölfar tilkynningar Umhverfisstofnunar, og í ljósi þess að hálendið er allt meira og minna lokað, verði reynt að fara í sérstakt eftirlit á svæðinu, þ.á.m. úr lofti um helgina í samstarfi við Landhelgisgæsluna. 

Sveinn á erfitt með að trúa því að ferðaþjónustan geri út á lokuð svæði á hálendinu þó það virðist raunin, en hann vill beina því til fólks að virða lokanir enda séu þær ekki settar á að ástæðulausu.


Tengdar fréttir

Virða akstursbann að vettugi

Akstursbann inn á Friðland að Fjallabaki er að engu haft þrátt fyrir lokanir og upplýsingagjöf. Gróðurskemmdir vegna utanvegaaksturs eru miklar. Fyrirtæki auglýsa og selja ferðir þrátt fyrir lögboðnar lokanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×