Innlent

„Tjékklistar“ eins og í flugvélum í umræðunni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Steinn Jónsson er formaður Læknafélags Reykjavíkur.
Steinn Jónsson er formaður Læknafélags Reykjavíkur. VISIR/GVA

Steinn Jónsson, formaður læknafélags Reykjavíkur, segir manndrápsákæru ríkissaksóknara á hendur hjúkrunarfræðingi Landspítalans vekja alvarlegar spurningar um verklag á spítalanum.

„En fyrst og fremst er þetta mál mjög dapurlegt, sérstaklega fyrir fjölskyldu sjúklingsins og  hjúkrunarfræðinginn sem á í hlut,“ segir Steinn. Hann telur að læknastéttinni komi málið við , þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur eigi í hlut, enda séu læknar ábyrgir fyrir meðhöndlun sjúklinga.

„Það verður þó að teljast ansi hart að draga einn hjúkrunarfræðing til ábyrgðar fyrir mál sem þetta,“ segir hann en bætir við að þó geti reynst erfitt að líta framhjá þætti heilbrigðisstarfsmanna þegar dauðsfall á sér stað, sérstaklega þegar það liggur fyrir hverjir málavextir hafa verið.

Að mati Steins er nauðsynlegt að skerpa á öllum reglum innan spítalanna er lúta að sambærilegum atvikum og að málið sé mikið umhugsunarefni fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk. Verkferlar flugfélaga hafi verið nefndir í því samhengi

„Fólki hefur orðið tíðrætt um svokallaða „tjékklista“ í flugvélum en flugvélar fara ekki í loftið fyrr en búið er að  fara yfir öll öryggisatrði,“ segir Steinn. „Þetta dæmi er sambærilegt enda eru líf fólks í  húfi í báðum tilvikum og maður getur séð fyrir sér að koma upp svipuðu kerfið á gjörgæsludeildum.“


Tengdar fréttir

Tvöfaldar vaktir alþekktur veruleiki

Nauðsynlegt er að vinna bug á starfsumhverfi sem ýtir undir mistök að mati formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×