Viðskipti innlent

Tímabundnar ívilnanir vegna byggingar sólarkísilverksmiðju

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undirritaði einnig yfirlýsingu um sókn á sviði nýsköpunar á sviði efnistækni, meðal annars ál- og kísilvinnslu.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undirritaði einnig yfirlýsingu um sókn á sviði nýsköpunar á sviði efnistækni, meðal annars ál- og kísilvinnslu. Vísir/GVA
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, undirritaði í dag fjárfestingarsamning við Silicor Materials um byggingu verksmiðju á Grundartanga til að framleiða sólarkísil.

Ýmsar tímabundnar ívilnanir fyrir þetta tiltekna verkefni felast í fjárfestingarsamningnum og er þar fyrst og fremst um lægri tekjuskattsprósentu, tryggingargjald og fasteignaskatt að ræða, að því er segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.

Áætluð ársframleiðsla sólarkísilverksmiðjunnar er um 19.000 tonn. „Beitt verður nýrri aðferð sem byggir á því að bræða kísilmál í fljótandi áli. Reiknað er með að framleiðsla geti hafist á seinni árshelmingi 2016 og að unnt verði að ná fullum afköstum árið 2017. Orkuþörf er áætluð um 60 MW. Engin brennisteins- eða flúorsmengun fylgir framleiðslunni og er útstreymi koltvísýrings áætlað undir 1.000 tonn á ári.“

Í tilkynningunni segir að til þess að efla nýsköpun og þróunarstarf í ál- og kísilvinnslu verði sett á laggirnar þriggja ára áætlun hjá Tækniþróunarsjóði um fjármögnun nýsköpunar- og þróunarverkefna á sviði efnistækni. „Gert er ráð fyrir a.m.k. 50 m.kr. framlagi til verkefna árlega gegn mótframlagi fyrirtækja. Þá mun Nýsköpunarmiðstöð Íslands fjármagna stöðugildi sérfræðings mun m.a. vinna að stofnun þróunarseturs. Markmiðið er að auka þekkingu og stuðla að aukinni verðmætasköpun á sviði efnistækni á Íslandi.“

Fjárfestingarsamningurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og heimildar frá Alþingi.

Við sama tilefni undirritaði ráðherra yfirlýsingu um sókn á sviði nýsköpunar á sviði efnistækni, meðal annars ál- og kísilvinnslu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×