Innlent

Stormi spáð víða um land

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Búist er við því að dragi úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun.
Búist er við því að dragi úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun. vísir/vilhelm
Stormi er spáð víða um land og víða er hált á þjóðvegum landsins. Á undan skilum djúprar lægðar er spáð mjög hvassri austurátt um tíma í Öræfasveit, hviður allt að 40-50 m/s frá því um hádegi og til um klukkan 16. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Þá er vakin athygli á varasömum aksturskilyrðum á Hellisheiði og í Þrengslum, hríðarkófi og blindu síðdegis. Hviður 30-40 m/s undir Eyjafjöllum um tíma nærri klukkan 15 og eins síðdegis undir Hafnarfjalli.

Norðaustan- og austanlands má reikna með dimmri hríð ásamt skafrenningi á fjallvegum upp úr miðjum degi og fram á kvöld. Stormur og ofanhríð einnig vestantil á Norðurlandi, á Vestfjörðum og í Dölum um tíma undir kvöldið sumsstaðar einnig í byggð. En annars hlánar um land allt á endanum.

Færð og aðstæður

Flestar aðalleiðir á Suðurlandi eru greiðfærar og Hringvegurinn er auður allt austur á Djúpavog. Hálkublettir eru á Mosfellsheiði og nokkrum fáfarnari vegum. Hálka er á Bláfjallavegi og í Kjósarskarði en flughált í Efri Grafningi.

Það er hálka eða hálkublettir á köflum á Vesturlandi, einkum á útvegum. Skafrenningur er bæði á Holtavörðheiði og Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víða hvasst og skafrenningur eða ofankoma. Stórhríð er á Klettshálsi, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði og þar ekki útlit fyrir að opnist í dag. Óveður er á Gemlufallsheiði og þæfingsfærð. Þæfingur er einnig á kafla í Djúpinu.

Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Norðurlandi og hríðarveður. Stórhríð er á Þverárfjalli og vegur ófær. Eins er ófært bæði á Hólasandi og Dettifossvegi.

Snjóþekja eða hálka er á flestum vegum á Austurlandi og sumsstaðar skafrenningur. Greiðfært er frá Djúpavogi suður.

Höfuðborgarsvæðið:

Spáð er norðaustan 15-23 m/s og snjókomu, en austlægari og rigning í kvöld. Hvöss austanátt og rigning á S- og V-landi í fyrramálið en dregur úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun. Hlýnandi veður, hiti 2 til 5 stig í kvöld og á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Austanátt á þriðjudag og miðvikudag með rigningu S-til og hita 1 til 5 stig, en þurrt og vægt frost á N-verðu landinu. Frá fimmtudegi til sunnudags er útlit fyrir að norðaustan- og norðanátt verði ríkjandi og ofankoma N- og A-lands, en þurrt sunnan heiða. Hiti um og undir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×