Viðskipti innlent

Íslendingar greiða 100 milljónum meira vegna hærri álagningar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað um 25% það sem af er árinu en verð á olíu hér á landi hefur aðeins lækkað um rúm 15%.
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað um 25% það sem af er árinu en verð á olíu hér á landi hefur aðeins lækkað um rúm 15%.
Íslenskir neytendur greiddu ríflega 100 milljónum meira fyrir eldsneyti í október vegna hærri álagningar olíufélaganna. Framkvæmdarstjóri félags íslenskra bifreiðaeigenda segir samráð stundum verða til í þögninni.

Heimsmarkaðsverð á hráolíu hefur lækkað um 25% það sem af er árinu en verð á olíu hér á landi hefur aðeins lækkað um rúm 15% að teknu tilliti til gengisþróunar íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir kostnað neytenda vegna hærri álagnir olíufélaganna í október, vera um 5 krónur vegna díselolíulítrans, en tæpar 4 krónur fyrir bensín.

„Ef við hugsum þetta í þessum stærðum, því þetta er nú ein stærsta neysluvara heimilanna, þá erum við að tala um að vegna hærri álagningar þá hafa neytendur verið að borga ríflega 100 milljónum meira fyrir eldsneyti, samanborið við það ef það hefði verið sambærileg álagning yfir allt árið. Þannig að niðurstaðan er sú að álagningin lækkar ekki í samræmi við lækkun heimsmarkaðsverðs,” segir Runólfur.

Eiga íslenskir neytendur þannig inni lækkun á eldsneyti, miðað við hvað heimsmarkaðsverð hefur lækkað mikið undanfarna mánuði?

„Já það er ljóst, sérstaklega í október, hefði átt að vera lægra verð. Þannig að það var ekki verið að fylgja þróuninni,” segir Runólfur.

Hann segir hverja krónu skipta máli í þessu samhengi.

„Ef að álagningin hækkar um eina krónu yfir árið, þá eru það um 350 milljónir upp úr vösum neytenda,” segir Runólfur.

Gefur þetta vísbendingar um samráð milli olíufélaganna?

„Stundum er það þannig að það verður til samráð í þögninni. Á svona fákeppnismarkaði virðist verða til svona fylgni á milli aðila. Það er einhver sem að leiðir og markaðurinn í heild sinni fylgir. Þeir þurfa ekkert endilega að hittast í Öskjuhlíðinni,” segir Runólfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×