Fótbolti

Aron Einar: Óvenjulegt að spila svona seint

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Lars Lagerbäck og Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundi í Riga í dag.
Lars Lagerbäck og Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundi í Riga í dag. Vísir/Valli
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, segir það vissulega óvanalegt að landsleikur Lettlands og Íslands fari jafn seint fram og raun ber vitni.

Leikurinn hefst klukkan 21.45 á staðartíma og Aron Einar var spurður á blaðamannafundi liðsins í dag hvort það myndi reynast leikmönnum erfitt að bíða svo lengi eftir leiknum á sjálfan leikdaginn.

„Það verður örugglega erfitt að halda einbeitingunni í lagi svo lengi,“ sagði Aron Einar. „En ég vona að þeir [Lettarnir] spili á sama tíma og við,“ bætti hann við í léttum dúr.

„En við verðum að takast á við þetta eins og menn og passa að missa ekki fókusinn. Ég hef ekki áhyggjur,“ sagði hann enn fremur.

Aron Einar segir að þjálfararnir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafi verið duglegir að minna þá á hætturnar við að vanmeta andstæðinginn á morgun.

„Við vitum að þetta verður erfitt og við sjáum það á úrslitum Lettlands í síðustu leikjum. Eins og svo margoft hefur komið fram þá töpuðum við gegn Kýpur úti eftir að hafa unnið Noreg heima í síðustu undankeppni og þjálfarnir hafa verið duglegir að minna okkur á það og koma því í hausinn á okkur.“

„Aðalatriðið er við náum að halda áfram að bæta okkar leik. Mér finnst strákarnir vera verulega einbeittir og það er bara gamla tuggan sem gildir - við hugsum bara um næsta leik og ekkert annað.“


Tengdar fréttir

Pahars leggur mikla áherslu á leikskipulag

Marian Pahars er einn þekktasti knattspyrnumaður Lettlands hin síðari ár en þessi 38 ára fyrrum sóknarmaður Southampton er nú landsliðsþjálfari Lettlands.

Lars: Ekkert talað um Holland

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson hafa notað allan sinn tíma til að undirbúa leikinn gegn Lettlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×