Innlent

Bjarni Ben ekki með lífvörð

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valli
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vakti umtalsverða athygli á árlegri fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á Hilton Hótel Nordica í morgun. Fram kemur á Nútímanum að með honum í för hafi verið dökkklæddur lífvörður með samskiptabúnað í eyranu sem fylgdi honum eftir og elti hann inn í bíl þegar ráðherrann yfirgaf ráðstefnuna. Hann hafi stillt sér upp á meðan Bjarni flutti ávarp sitt og að gestir ráðstefnunnar hefðu furðað sig á þessari tilhögun.

Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytis, segir í samtali við Vísi að um hafi verið að ræða bílstjóra hans og að búnaðurinn í eyra bílstjórans hafi verið handfrjáls búnaður. Ekki hafi verið um lífvörð að ræða en vísar hún í 8.gr reglugerðar um bifreiðamál ríkisins þar sem segir að bílstjórar gegni jafnframt hluti öryggisvarða. Aðspurð hvort þetta sé ekki einungis spurning um orðanotkun, hvort einhver munur sé á starfi öryggis- og lífvarða, vísaði hún aftur í reglugerðina en þar segir að bílstjórar þurfi að undirgangast sérstaka þjálfun vegna starfsins.

„Ríkið skal leggja ráðherrum ríkisstjórnarinnar til bifreið til afnota vegna starfa sinna og til aksturs frá heimili að vinnustað. Bifreiðin skal vera sérútbúin með öryggiskerfi og staðsetningarbúnaði og vera í eigu og rekstri ríkisins. Slíkri bifreið skal að jafnaði ekið af sérstökum bifreiðarstjóra sem sinnir jafnframt hlutverki öryggisvarðar hlutaðeigandi ráðherra,“ segir meðal annars í reglugerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×