Lífið

Munu jarðskjálftamælar hristast?

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Hljómsveitin hátveiro Datt niður á það að spila lög eftir Genesis og hefur haldið sig við það síðan.
Hljómsveitin hátveiro Datt niður á það að spila lög eftir Genesis og hefur haldið sig við það síðan.
„Við stofnuðum hljómsveitina fyrst til þess að búa til okkar eigin lög. Síðan duttum við niður á það að fara að spila lög Genesis og höfum haldið okkur við það síðan,“ segir Bjarni Þór Sigurðsson, meðlimur hljómsveitarinnar Hátveiro sem heldur tónleika á Græna hattinum á Akureyri á laugardagskvöld.

Þar ætlar sveitin að spila bestu lög hljómsveitarinnar Genesis en áður hefur hún leikið lög sveitarinnar á tónleikum meðal annars í Salnum í Kópavogi. En af hverju þessi mikli Genesis-áhugi? „Hann kemur frá Birni bassaleikara í bandinu og Jósef píanóleikara, þeir eru miklir aðdáendur. Þeir fóru að ræða saman um hvað þeir vildu spila og duttu fyrir tilviljun inn á þetta,“ segir hann.

Bjarni segir að búast megi við miklu stuði á laugardagskvöldinu og jafnvel að jarðskjálftamælar á Eyjafjarðarsvæðinu hreyfist hressilega þegar ofurtrymbillinn Sigurður Karlsson ber húðirnar. Lítið hefur farið fyrir Sigurði í tónlistarsenunni undanfarin ár en á árum áður var hann meðal annars í sveitum á borð við Brunaliðið, Friðryk og Change.

„Það er mikill happafengur fyrir okkur að hafa fengið hann til liðs við okkur og í raun bara íslenskt tónlistarlíf. Hann er ekki bara góður trommari heldur líka með þeim höggþyngri og þekktur fyrir kraftmikinn trommuleik. Þannig að það er öruggt að menn fá eitthvað fyrir peninginn þegar hann fer að tromma,“ segir Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×