Lífið

Leita að töfrateppi fyrir tónleika

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Steinunn Eldflaug Harðardóttir.
Steinunn Eldflaug Harðardóttir. Vísir/Valli
Reggísveitin Hjálmar sendi í gær frá sér nýtt lag sem ber heitið Tilvonandi vor. Það er engin önnur en Steinunn Eldflaug Harðardóttir eða dj. flugvél og geimskip sem ljær laginu sinn sérstaka hljóm.

Hún mun koma fram með Hjálmum á 10 ára afmælistónleikum þeirra í Hörpu þann 26. september.

„Ég hef verið mikill aðdáandi Steinunnar síðan ég heyrði tónlistina hennar fyrst. Ég átti nú ekki von á því að strákarnir myndu kaupa þetta en við buðum henni í heimsókn þar sem hún kom með öll litlu tækin sín,“ segir Guðmundur Kristinn Jónsson, meðlimur sveitarinnar, um samstarfið.

Hljómsveitin segist nú leita að töfrateppi fyrir tónleikana en þeir vilja að Steinunn komi svífandi inn á sviðið á töfrateppi. Í tilkynningu frá Hjálmum segir að þeir sem geti orðið að liði séu beðnir um að hafa samband.

Sama dag kemur út tvöföld plata á vegum Senu er nefnist Skýjaborgin og inniheldur öll bestu lög Hjálma ásamt nokkrum lögum sem hafa verið óútgefin hingað til. 

Þá kemur bráðum út plata sem Hjálmar unnu með norska tónlistarmanninum Erlend Øye úr hljómsveitinni Kings of Convenience.

Plötuumslagið á nýrri plötu Hjálma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×