Lífið

Gillz og Óli Geir bannaðir á menntaskólaballi

Þórður Ingi Jónsson skrifar
"Dirty Night“ Óla Geirs var umdeild.
"Dirty Night“ Óla Geirs var umdeild.
Hætt var við að plötusnúðarnir Óli Geir og Gillzenegger kæmu fram á nýnemaballi Flensborgar í gær og var rapparinn Blaz Roca fenginn í staðinn. Skólastjórn ákvað þetta eftir að foreldraráð skólans hafði blandað sér í málið.

„Foreldraráðið var kannski dropinn sem fyllti mælinn en þetta var búið að standa í bæði stjórnendum og starfsfólki skólans. Annars erum við ekki vön því að skipta okkur af böllum á þennan hátt,“ segir Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgar.

Margir nemendur skólans lýstu yfir óánægju sinni með þetta á samfélagsmiðlum. „Það átti að fá Gillz og Óla Geir en því var sleppt þar sem Gillz var náttúrulega kærður fyrir nauðgun og Óli Geir var með „Dirty Night“. Blaz Roca var hent inn í staðinn sem er ekkert betri fyrirmynd,“ segir einn ósáttur nemandi í samtali við blaðamann. „Það eru allir mjög ósáttir með að Gillz hafi verið tekinn burt, enda miklir Gillz aðdáendur í Flensborg.“

Aðspurður um þetta segir Magnús að skiptingin hafi verið málamiðlun. „Ég er ansi hræddur um að það séu ekki voða margir sem eru með hreinan skjöld en þessir tveir stóðu í okkar fólki. Listamenn búa til ákveðna ímynd getum við sagt, ákveðna karaktera og sumir fara yfir einhver strik sem okkur líkar ekki við.

Mér þykir bara kraftaverk að hægt hafi verið að bjarga þessu í tæka tíð með svona stuttum fyrirvara,“ segir Magnús.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×