Viðskipti innlent

Skiptar skoðanir um fyrirtæki sem lofar ódýru ferðalagi til Íslands

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Price Drop Iceland er nýtt fyrirtæki sem miðar að því að hjálpa ferðamönnum að ferðast um landið án þess að tæma budduna.
Price Drop Iceland er nýtt fyrirtæki sem miðar að því að hjálpa ferðamönnum að ferðast um landið án þess að tæma budduna. Vísir
Stofnað hefur verið nýtt ferðaþjónustufyrirtæki sem miðar að því að hjálpa félitlum ferðamönnum að ferðast um Ísland. Ferðaþjónustan kallast Price Drop Iceland en samkvæmt starfsfólki fyrirtækisins hafa þau vart annað eftirspurn síðan heimasíða þess var sett í loftið.

„Hugmyndin að Price Drop er frekar ung og við höfum verið dugleg að ýta henni úr vör en erum í raun enn að koma okkur fyrir,“ segir í svari fyrirtækisins við fyrirspurn fréttastofu.

„Við viljum að ferðamenn geti notið meira af því sem hér er í boði og upplifað fjölbreytta afþreyingu. Því teljum við þetta vera gott tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila til að ná betri nýtingu í ferðirnar sínar.Við vonumst til að getað unnið í góðu samstarfi við öll ferðaþjónustufyrirtæki og að þessi viðbót á markaðinum verði til þess að skapa jákvæða umræðu og upplifun hjá ferðamönnum.“

Skjáskot af síðunni.Vísir/PriceDrop
Á síðunni geta þeir sem eru í ferðahug skráð sig og fá þá tilboð daglega í pósthólfið sitt. Skráning er hafin en tilboðin koma ekki fyrr en í næstu viku.

Skiptar skoðanir um framtakið

Skapast hefur umræða um síðuna á Facebook hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Skiptar skoðanir eru á framtakinu. Telja sumir umgengni þeirra sem félitlir eru almennt hafa verið verri í náttúrunni hér á landi.

Annar segir markaðsetningu sem þessa slæma þar sem hún miði að því að allt hér á landi sé dýrt. Hins vegar benda margir á að viss hroki og græðgi felist í því að vilja ekki taka á móti efnaminni ferðamönnum alveg eins og þeim sem verja meiri peningum hér á landi. Það skapi umfjöllun um landið úti í heimi þar sem allir deili myndum og sögum úr reisu sinni þegar heim er komið.

Undanfarna daga hafa ýmsir meðlimir hópsins deilt sögum af háu verðlagi á mat og þjónustu sem ætluð er ferðamönnum. Þar er bent á að súpudiskur og brauð sé verðlagt á 2900 krónur á stað úti á landi og að kleina hafi kostað ferðamann 390 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×