Menning

Mamma Almars: „Ég er auðvitað mamma hans og hef áhyggjur“

Birgir Olgeirsson skrifar
Maður vikunnar er án ef 23 ára gamli myndlistarneminn Almar Atlason sem ætlar að dvelja nakinn í glerkassa í heila viku. Almar fór í kassann á mánudag og hefur um fátt annað verið rætt á samfélagsmiðlum en veru hans í þessum kassa sem er streymt í beinni útsendingu á myndbandavefnum YouTube.

Ísland í dag fór og heilsaði upp á Almar í kvöld og ræddi meðal annars við móður hans Katrínu Friðriksdóttur sem sagðist stolt af syni sínu. „Hann er hugmyndaríkur og skapandi drengur sem kýs að fara sínar eigin leiðir.“

Spurð hvort hún hafi áhyggjur af stráknum sínum svaraði hún: Já, ég er auðvitað mamma hans og hef áhyggjur af allskonar praktískum atriðum eins og hvort honum sé kalt, hvort honum líði ekki nógu vel. En það er partur af þessu, að vera mamman,“ sagði Katrín.

Hún færði honum vatn í kvöld og sagði þetta vera í annað skiptið sem hún heilsar upp á Almar. Ísland í dag ræddi einnig við vinkonu Almars, Elínu Elísabetu Einarsdóttur, sem sagði umræðuna á veraldarvefnum um Almar vera mestan part skemmtilega en svo séu að sjálfsögðu furðulegar umræður inn á milli þar sem athyglin beinist einna helst að þeirri staðreynd að Almar er nakin.

Móðir Almars tók undir það. „Athyglin snýst svolítið mikið um kúk og piss og nekt,“ sagði Katrín sem sagðist ekki hafa fylgst mikið með umræðunni en sjálfsagt tæki hún margt því sem sagt er um Almar inn á sig ef hún fylgdist betur með.

Elín Elísabet færði Almari gulrætur og mandarínur í kvöld og fagnaði móðir hans því. „Ég hef bara séð hann borða snakk þegar ég hef kíkt á hann,“ sagði hún glettin að lokum.

Bein útsending

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×