Tónleikastaðurinn Bataclan í París mun opna á nýjan leik eftir um ár. Einn eiganda staðarins greinir frá þessu í samtali við Le Monde.
Níutíu tónleikagestir voru drepnir í árás hryðjuverkamanna á staðinn að kvöldi föstudagsins 13. nóvember þar sem bandaríska þungarokksveitin Eagles of Death Metal var að spila.
„Þetta á ekki að verða staður til að minnast hinna látnu eða staður fyrir pílagríma. Leiðin er löng, en við þurfum að sjá dyrnar opnast. Við þurfum líf,“ segir eigandinn Jules Frutos í samtali við blaðið.

