Körfubolti

Stigahæsti leikmaður Dominos-deildar kvenna ekki meira með á árinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsie Schweers.
Chelsie Schweers. Vísir/Vilhelm
Chelsie Schweers, bandaríski bakvörðurinn hjá nýliðum Stjörnunnar í Dominos-deild kvenna, mun missa af næstu leikjum Garðabæjarliðsins.

Stjarnan segir frá því á fésbókarsíðu sinni að Chelsie Schweers verði allavega frá keppni út árið.

Chelsie Schweers er handarbrotin en það kom ekki í ljós fyrr en hún var búin að spila þrjá leiki handarbrotin.

Chelsie meiddist í leik á móti Val en hafði síðan skorað 41 stig á móti Hamar, 34 stig á móti Haukum og 31 stig á móti Snæfelli. Ekki slæmt hjá leikmanni sem var að spila handarbrotin.

Chelsie Schweers hefur skorað 33,3 stig, tekið 8,0 fráköst og gefið 5,4 stoðsendingar að meðaltali í átta leikjum sínum í Domino´s deild kvenna í vetur.

Chelsie er mikil þriggja stiga skytta en auk þess að vera stigahæsti leikmaður Domino´s-deildarinnar þá hefur heldur enginn leikmaður skorað fleiri þriggja stiga körfur. Chelsie hefur skorað 31 þrist í 8 leikjum eða 3,9 að meðaltali í leik.

Stjarnan lék í fyrsta sinn án Chelsie Schweers í Keflavík á sunnudagkvöldið og tapaði þá með 23 stiga mun, 75-52.

Chelsie Schweers er ekki sú eina sem er frá keppni í Stjörnuliðinu. Hafrún Hálfdánardóttir er einnig meidd og þá hefur Bára Fanney Hálfdanardóttir einnig verið frá æfingum og keppni.

Stjörnuliðið er sem stendur í 6. sæti deildarinnar en einu sigrar liðsins hafa komið á móti Keflavík og botnliði Hamars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×