Viðskipti innlent

Nýtt hótel rísi á horni Lækjargötu og Vonarstrætis

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Svona er ráðgert að hótelið muni koma til með að líta út.
Svona er ráðgert að hótelið muni koma til með að líta út. mynd/gláma kím
Tillaga Glámu Kíms Arkitekta varð hlutskörpust í lokaðri samkeppni um hótel sem áformað er að byggja á lóðinni Lækjargata 12, á horni Lækjargötu og Vonarstrætis. Samkeppnin var boðskeppni. Aðrir þátttakendur voru Studio Granda í samvinnu við Gullinsnið og Basalt Arkitektar. Verkkaupi er Íslandshótel hf.

Horn Lækjargötu og Vonarstrætis er áberandi staður í miðborg Reykjavíkur og verður hótelið ein af þeim nýbyggingum sem kemur til með að standa skammt frá Kvosinni. Aðalhlið hótelsins mun snúa að Lækjargötu, en uppbrot og áherslur undirstrika innri skipan þess. Húshlið að Vonarstræti tekur mið af hæð og hlutföllum Vonarstrætis 4, sem er höfundarverk Guðjóns Samúelssonar.

Í samtali við mbl.is segir Ólafur Torfason, forstjóri Íslandshótela, að hann bindi vonir við að hægt verði að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Stefnt er að því að hótelið opni í mars eða apríl 2018. Enn skortir samþykki skipulagsyfirvalda.

Hótelið er fjögurra stjarna-, 115 herbergja, það verður hæst fimm hæðir auk kjallara. Á jarðhæð er áætlað að hafa verslanir, veitingasal og bar, eldhús og skrifstofur, auk nokkurra hótelherbergja. Í kjallara verði þjónusturými og bílastæði og á 2. - 5. hæð verða hótelherbergi. Á þremur efstu hæðum verða þaksvalir fyrir hótelgesti, þar sem njóta má útsýnis til allra átta.

Brúttóstærð byggingarinnar ofanjarðar verður um 5000m² og brúttóstærð kjallara verður um 1500m² sem er innan þeirra marka sem deiliskipulag reitsins heimilar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×