Innlent

Ég hætti að vera góður

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Kristjón við rauða húsið á Suðurgötu þar sem bjargarleysið gerði fyrst vart við sig.
Kristjón við rauða húsið á Suðurgötu þar sem bjargarleysið gerði fyrst vart við sig. Vísir/Stefán
Kristjón Kormákur Guðjónsson var fimm ára gamall þegar hann fann fyrst til hræðslu og bjargarleysis vegna heimilisofbeldis. Hann var um ellefu ára gamall þegar sjúkrabíll sótti móður hans á heimili þeirra blóðuga eftir árás fóstra hans. Samt höfðu þau það stundum svo gott. Svo gerði hann uppreisn. Hætti að vera góður. Sextán ára gamall flutti hann að heiman og sautján ára var hann kominn á götuna. 



Þegar móðir Kristjóns og fóstri rifust og slógust faldi hann sig. „Við bjuggum á Suðurgötu í rauðu húsi. Við bjuggum þar uppi á efstu hæð í risinu, ég, mamma og fóstri minn.

Ég var fimm ára. Þau rifust. Þau rifust oft, tókust stundum á en ekki endilega. Það voru ekki alltaf líkamleg átök, oftar rifrildi sem stigmagnaðist og hræddi mig. Ég fann að ég gat ekki stjórnað aðstæðum. Ég vissi ekki hvað myndi gerast næst og beið eftir því að allt dytti í dúnalogn.“

Hann man ekki glöggt eftir aðstæðum. Man skýrar eftir tilfinningunni um bjargarleysi og því að stundum var allt gott.

„Ég reyndi að koma mér í skjól inni í herbergi. Ég er reyndar svo lítill þarna að ég man ekki allt. Móðir mín var í miklu rugli á þessum tíma og átti við geðsjúkdóm að stríða líka. Þótt samband hennar og fóstra míns væri rosalega eldfimt þá var það líka oft fallegt. Þau voru ekki alltaf að öskra á hvort annað. Það komu alveg tímar þar sem við vorum að gera eitthvað skemmtilegt saman og hann oft góður við mig. Þetta voru bara tveir veikir einstaklingar í sambúð. Þá báðir veikir alkóhólistar og mamma með geðsjúkdóm.“

Tekinn frá móður sinni

Kristjón átti ekki eftir að eiga heima í rauða húsinu mikið lengur. Hann var tekinn frá móður sinni vegna þess að hún var ekki fær um að sjá um hann vegna veikinda sinna.

„Ég sá hluti sem ekkert barn á að verða vitni að. Og einn daginn leiddi amma Jóhanna mig burt frá stóra rauða húsinu í Suðurgötu og kom mér í skjól hjá afa og ömmu í Bolungarvík. Það tók mömmu mörg ár að fyrirgefa ömmu.“

 

Kristjón flutti til föðurforeldra sinna sem bjuggu vestur í Bolungarvík.

„Þá breyttist aðeins þetta munstur. Ég bjó hjá ömmu og afa en fór til mömmu á jólum, páskum og eyddi með henni broti úr sumri. Afi og amma höfðu átt fjórtán börn, ég varð fordekrað örverpi þeirra. Fékk kakó í rúmið og það var lesið fyrir mig þangað til ég leið út af. Amma mín var einstaklega góð kona sem aldrei sagði styggðarorð um aðra. Henni er best lýst með hennar eigin orðum en hún sagðist aldrei hafa meitt lifandi veru, nema eitt sinn flugu og það hafi verið óvart. Að lenda í höndunum á henni var mín gæfa.“ 

Móðir hans og fóstri fluttu úr rauða húsinu og bjuggu sér heimili í húsi einstæðra foreldra í Skerjafirði. Kristjón hélt áfram að heimsækja þau. Það gekk ekki alltaf vel. Þegar hann var um ellefu ára varð hann fyrir djúpstæðu áfalli í einni heimsókn sinni.

Greypt í minnið

„Þeim lenti saman og fóru að rífast. Mamma læsti hann úti og hann bankar og vill komast inn. Ég er verulega hræddur og veit að þetta endar illa. Hún hleypir honum ekki inn en þá sparkar hann upp hurðinni og slær hana svo henni blæðir. Skurður hafði opnast í andliti hennar og blóðið fossaði úr honum. Það kom sjúkrabíll og náði í hana og lögreglan kom á vettvang. Þessi atburður er sem greyptur í minnið. Hvert einasta atvik og tilfinning sem honum fylgdi.“

Kristjón hefur lítið sem ekkert rætt þessa atburði úr æsku sinni. „Ég skrifaði pistil um þennan atburð fyrir nokkru síðan en þetta er í fyrsta sinn sem ég í raun ræði þessa hluti. Ég hef ekki farið og rætt þetta hjá neinum sálfræðingi. Ég er mjög prívat maður.“

Faðir hans festi ráð sitt og vildi búa Kristjóni gott heimili. Hann fluttist til hans og fannst það erfitt.

„Ég gerði uppreisn. Ég hafði haft það svo gott hjá ömmu og afa en nú þurfti ég að rífa mig upp og fara eftir reglum, svona eins og að raða skónum mínum og ganga frá eftir mig. Ég fékk auðvitað ekki lengur kakó í rúmið,“ segir hann og brosir við.

Kristjón stóð sig afskaplega vel þótt það væri farið að örla á óróleika með ákefðinni sem fylgdi honum. Hannn var efnilegur íþróttamaður og fyrirmyndarunglingur þegar skyndilega hallaði undan fæti.

„Ég flippaði út þegar ég var unglingur. Ég byrjaði að drekka um fimmtán ára og var kominn í dóp sextán ára og flutti eiginlega að heiman. Ég var svo kominn á götuna sautján ára. Ég hugsaði ekki um neitt nema næsta skammt. Ég bjó hér og þar, í yfirgefnum húsum og dópgrenjum.

Ég var rosalega efnilegur íþróttamaður, ég stofnaði körfuboltalið Hveragerðis ásamt vinum mínum og var næstum því kominn í unglingalandsliðið í fótbolta. En um leið og ég byrjaði að dópa og drekka gerði ég það jafn vel og allt annað. Af jafn miklum ákafa.

Allt snerist um næsta skammt

Þetta gerðist rosalega hratt. Ég fór frá því að vera fyrirmyndarunglingur í að vera unglingurinn sem enginn vill hafa á heimilinu.

Faðir minn og fóstra mín vissu ekki hvað átti að gera við mig og ég álasa þeim ekki fyrir það. Þetta var svo mikil breyting sem varð á mér. Ég var eins og andsetinn. Ég fór frá því að vera unglingurinn sem vildi ekki missa af æfingum yfir í að vera unglingurinn sem vildi ekki koma heim. Allt snerist um næsta skammt og þá skipti ekki máli hvort ég rændi þau eða einhvern annan. “

Þetta tímabil í lífi Kristjóns varði frá sextán ára aldri til tvítugs. Þá var honum borgið en hann veltir því samt fyrir sér hvort þetta hefði endilega þurft að verða hlutskipti hans. Hann hefur ekki mikið velt því fyrir sér, er bara feginn að hann er á lífi.

„Ég var búinn að reyna nokkrum sinnum að hætta, búinn að fara í nokkrar meðferðir. Ég var oft nálægt því að deyja, velti bílum og búinn að koma mér í aðstæður þar sem ég gat kvatt og sagt bless. Ég held að ég hafi hreinlega verið búinn að klára þetta um tvítugt. Það var bara komið gott.“

Kristjón hélt áfram að lifa lífinu af ákafa og var orðinn fjögurra barna faðir tuttugu og fjögurra ára gamall. En konunni sinni kynntist hann um tvítugt. Hann tók ákvörðun um að verða heiðvirður borgari og fór að huga að því til lengri tíma að láta gamlan draum rætast að verða blaðamaður.

Gerðist heiðvirður borgari

„Ég tók mér smá tíma og skrifaði um reynslu mína af þessum dópárum. Uppgjör við þennan tíma. Síðan gerðist ég bara heiðvirður borgari, fór að vinna og borga skatta. Ég fór að vinna í Íslenskri erfðagreiningu og var þar í um fjögur ár en mig dreymdi nú alltaf um að verða á endanum blaðamaður. Mér var boðin vinna á DV um tvítugt en ég var ekki tilbúin til þess en Björn Ingi Hrafnsson veitti mér svo seinna stóra tækifærið og það gerði Arnar Ægisson framkvæmdastjóri Pressunnar líka. Ég var orðinn fjögurra barna faðir tuttugu og fjögurra ára gamall og smám saman fóru sárin að gróa.“

Nú finnur hann fyrir þörf fyrir að ræða opinskátt um heimilisofbeldið. Fóstri hans hætti að drekka og hjálpaði honum og tugum unglinga við að ná tökum á áfengis- og fíkniefnavanda sínum. Móðir hans hefur verið edrú í rúm tuttugu ár. „Mamma hefur staðið sig einstaklega vel sem manneskja og móðir eftir að hún sigraðist á sínum vanda og skilaði bræðrum mínum einstaklega vel af sér.

Ég skil alveg að mömmu hafi fundist erfitt að ég væri að opinbera þetta í pistli. En þetta snýst ekki um það að ég sé reiður út í neinn og ég er ekki að ásaka neinn. Þau voru lasin á þessum tíma. Móðir mín hefur gengið í gegnum svo margt og ég er búinn að fyrirgefa henni fyrir löngu. Það þarf að ræða opinskátt um ofbeldi því það eru svo margir sem eru að glíma við þessar aðstæður. Í hverri viku verða fimm til sex börn vitni að því þegar foreldrar beita hvort annað ofbeldi. Sum þeirra verða svo hrædd að þau þurfa áfallahjálp. Þessi börn eru í sömu sporum og ég var. Mér hefur gengið ágætlega að glíma við þetta. Kannski er ég búinn að loka þetta inni en það sem mér finnst erfiðast er að vita af þeim úti í bæ, bjargarlausum.“

Barnið týnir sjálfu sér

Kristjón starfar sem ritstjóri Pressunnar og á hverjum degi rennir hann yfir fréttatilkynningar dagsins. Tilkynningar um heimilisofbeldi minna hann á sársaukann og skaðann sem ofbeldi veldur. „Ég hugsa oft um þetta á morgnana þegar ég lít yfir fréttatilkynningarnar. Í dæmigerðri tilkynningu kemur ef til vill fram að konan sem um ræðir sé ekki alvarlega slösuð eða með áverka.



Þá hugsa ég til þessa fólks og hugsa um allan þann skaða sem það hefur orðið fyrir þrátt fyrir allt. Þetta viðhorf þarf að breytast, að manneskjur séu ekki meiddar af því að það sér ekki á þeim. Barn sem býr við þessar aðstæður veit ekki hvað gerist næsta dag, það er alltaf á nálum, hættir að vera það sjálft því það er að reyna að ná stjórn á aðstæðum með því að bregða sér í hlutverk.

Eftirköstin eru miklu dýpri en fólk gerir sér grein fyrir. Það eiga engin börn að þurfa að ganga í gegnum þetta. Það þarf að stöðva þetta. Ég veit að lögreglan stendur sig vel og átak lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi er gott framtak en ég tel að það megi gera meira fyrir börn í þessum aðstæðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×