Erlent

Rússar líta árásina mjög alvarlegum augum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skáskot
Skáskot

„Mjög alvarlegt atvik,“ eru orðin sem talsmaður Vladimirs Pútín Rússlandsforseta notaði um gröndun hinnar rússnesku Su-24 herþotu sem skotin var niður yfir Sýrlandi í dag.

Hann bætti þó við að of snemmt væri að draga ályktanir að svo stöddu. Tveir voru um borð í vélinni og virðast þeir hafa náð að skjóta sér út í fallhlífum.

Sjá: Tyrkir grönduðu rússneskri herflugvél

Þó heldur fjölmiðillinn Vice því fram að annar þeirra hafi látist í árásinni. Lík hans sé nú í höndum uppreisnarmanna sem berjast gegn stjórn Assads Sýrlandsforseta. Sýrlenskar og rússneskar herþotur hafa athafnað sig á svæðinu nærri Tyrknesku landamærunum að Sýrlandi síðustu daga.  „Það er ómögulegt að segja nokkuð áður en allar upplýsingar liggja fyrir,“ sagði talsmaðurinn Dmitry Peskov í samtali við þarlenda fjölmiðla í morgun.

Talsmenn tyrkneskra yfirvalda sögðu að orrustuþotur tyrkneska hersins höfðu grandað vélinni eftir að hafa margítrekað við flugmenn hennar að hún væri að brjóta lofthelgi landsins. Þessu hefur varnarmálaráðuneytið Rússlands hafnað og segist hafa sannanir fyrir því að vélin hafi ekki flogið inn á flugumsjónarsvæði Tyrklands.

Brak flugvélarinnar hrapaði í gróðursælu fjallendi í Latakia-héraði í norðurhluta Sýrlands. Að sögn Vice gengur svæðið undir nafninu „Tyrkjafjall,“ meðal heimamanna.

Hér að neðan má sjá myndband af braki vélarinnar koma til jarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×