Innlent

Andar köldu milli SVÞ og ASÍ

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Togstreita er á milli Samtaka verslunar og þjónustu og Alþýðusambands Íslands. SVÞ sakar ASÍ um ófagleg vinnubrögð og ASÍ svarar í sömu mynt.
Togstreita er á milli Samtaka verslunar og þjónustu og Alþýðusambands Íslands. SVÞ sakar ASÍ um ófagleg vinnubrögð og ASÍ svarar í sömu mynt. vísir/vilhelm
Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna verðlagseftirlit ASÍ harðlega og segja vinnubrögð þess nær óboðleg. Verðlagseftirlitið birti í gær verðkönnun þar sem fram kom að vörukarfan hefði hækkað í verði í öllum verslunum, nema einni frá því í júní. ASÍ segir að um sé að ræða innistæðulaus gífuryrði af hálfu SVÞ.

Samtökin saka eftirlitið um ófagleg vinnubrögð með því að hafa ekki „hirt um að gera grein fyrir ástæðunum sem liggi að baki því að verð á einstökum vörum kunni að hafa hækkað“. Eftirlitinu sé fullkunnugt um að verðlagseftirlit búvara hafi ákveðið að hækka verð á mjólk og mjólkurafurðum um 3,58 prósent og smjör um 11,6 prósent. Þeirri ákvörðun hafi bæði SVÞ og ASÍ mótmælt, en að mótmæli sambandsins hefðu mátt vera kröftugri, þar sem ákvörðunin hafi fyrst og fremst beinst gegn hagsmunum hins almenna félagsmanns í verkalýðshreyfingunni.

„Það þarf því ekki að koma ASÍ eða öðrum á óvart að sú ákvörðun sem verðlagsnefnd búvara tók í júlí, endurspeglist í verði mjólkur og mjólkurvara. Það ber hins vegar ekki vott um fagleg vinnubrögð af hálfu verðlagseftirlits ASÍ að minnast ekki einu orði á það hvaða orsakir liggi þar að baki. Á meðan verðlagseftirlitið heldur áfram að stunda vinnubrögð sem þessi heldur trúverðugleiki þess áfram að minnka. Almenningur hlýtur að vilja heyra allan sannleikann,“ segir í fréttatilkynningu frá SVÞ.

Ásökunum svarað með ásökunum

ASÍ svaraði ásökunum SVÞ í sömu mynt í dag. Í svarinu segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem SVÞ „slái um sig með gífuryrðum“ í gagnrýni sinni á verðlagseftirlit ASÍ. Samtökin virðist telja að með því að nota nógu stór orð nógu oft geti samtökin grafið undir trúverðugleika verðlagseftirlits ASÍ.

„Þetta eru alvarlegar ásakanir, sérstaklega í ljósi þess að SVÞ gerir engar efnislegar athugasemdir við gerð, framkvæmd, úrvinnslu eða niðurstöður verðkönnunarinnar,“ segir í svarinu, en yfirskrift bréfsins er „Gífuryrði án innistæðu“.

Þá segir að verðlagseftirlit ASÍ hafi einungis það markmið að veita verslunum aðhald með því að upplýsa neytendur um verðlag og þróun verðlags. Það hafi engra annarra hagsmuna að gæta „ólíkt SVÞ sem virðist telja það þjóna hagsmunum þeirra sem samtökin starfa fyrir að draga úr því aðhaldi sem verðlagseftirlitið veitir með innihaldslausum gífuryrðum“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×