Erlent

Shell hættir olíuleit við Alaska

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Olíuborpallurinn sem Shell hefur notað við Alaska til að leita að olíu og gasi.
Olíuborpallurinn sem Shell hefur notað við Alaska til að leita að olíu og gasi. Nordicphotos/AFP
Bresk-hollenska olíufyrirtækið Shell hefur hætt olíu- og gasleit út af ströndum Alaska. Fyrirtækið segir ekki nóg hafa fundist þar í borunum til þess að áframhaldandi vinna borgi sig.

Þessi ákvörðun er tekin aðeins rúmlega tveimur mánuðum eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti gaf Shell grænt ljós á boranir út af Alaskaströndum.

Olíuboranir þar hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir að hafa slæm áhrif á umhverfið.

Upphaflega borgaði Shell bandaríska innanríkisráðuneytinu fimm milljarða dala fyrir leyfi til rannsókna. Þetta var árið 2008.

Í tilkynningu, sem Shell birti á vef sínum í gær, segir fyrirtækið framkvæmdirnar hafa kostað sig þrjá milljarða dala og 1,1 milljarður dala muni bætast við kostnaðinn vegna framtíðarskuldbindinga.

Málaferli og ýmis óhöpp hafa tafið framkvæmdirnar og fyrirtækið segir að ein ástæða þess, að hætt hefur verið við boranir, sé hve bandaríska laga- og reglugerðarumhverfið sé erfitt viðureignar og óútreiknanlegt.

Óvenjulágt olíuverð á vafalítið ekki síður sinn þátt í þessari ákvörðun, enda hagnaðarvonin enn minni sem því svarar.

Núna fást um það bil 50 dalir fyrir hverja olíutunnu, og hefur verðið lækkað um helming frá því fyrir nokkrum árum þegar ákvörðun var upphaflega tekin um að reyna olíuboranir út af Alaska. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×