Erlent

Fjöldaútför í Suruc fyrir fórnarlömb sprengjuárásar

Bjarki Ármannsson skrifar
Aðstandendur syrgja einn hinna látnu í dag.
Aðstandendur syrgja einn hinna látnu í dag. Vísir/EPA
Fjöldaútför fór fram í dag fyrir flesta af þeim aðgerðarsinnum sem létu lífið í sjálfsmorðsárásinni í bænum Suruc í Tyrklandi í gær. Hópurinn samanstóð fyrst og fremst af háskólanemum sem hugðust ferðast yfir sýrlensku landamærin til að hjálpa til við uppbyggingu borgarinnar Kobane, þar sem blóðug átök Kúrda og liðsmanna Íslamska ríkisins hafa staðið að undanförnu.

Yfirvöld hafa borið kennsl á sprengjumanninn, sem talinn er tengjast Íslamska ríkinu. Hann sprengdi sig í loft upp á blaðamannafundi aðgerðarsinnanna með þeim afleiðingum að 32 fórust og um hundrað til viðbótar særðust.

Í Suruc kom fólk saman við mosku í dag til að votta 25 af hinum látnu virðingu sína áður en lík þeirra voru flutt til heimabæja þeirra til greftrunar. Hundruð manna hrópuðu slagorð gegn vígamönnum Íslamska ríkisins og gegn Recep Erdogan Tyrklandsforseta, sem gagnrýndur hefur verið fyrir að bjóða samtökunum ekki birginn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×