Lífið

Crystals eftir OMAM í aðalhlutverki í stiklu fyrir nýjustu mynd Pixar

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lítið er um samræður í stiklunni og því fær lag sveitarinnar að njóta sín vel.
Lítið er um samræður í stiklunni og því fær lag sveitarinnar að njóta sín vel. Vísir/Úr stiklu myndarinnar „The Good Dinosaur“
Lagið Crystals með hljómsveitinni Of Monsters and Men hljómar í stiklu fyrir myndina „The Good Dinosaur“ eða „Góða risaeðlan.“ Myndin er frá hinu vinsæla kvikmyndagerðafyrirtæki Disney Pixar sem hefur sent frá sér kvikmyndir á borð við Cars, WALL-E og Brave.

Stikluna má sjá hér að neðan.

Stiklan kom út í dag en myndarinnar er að vænta í kvikmyndahús í lok nóvember. „The Good Dinosaur“ er önnur mynd Pixar á árinu en myndin „Inside out“ kom út nú í sumar. Sú mynd hefur fengið afar góðar viðtökur og er til að mynda talin 98 prósent fersk á vefsíðunni Rotten tomatoes sem tekur saman kvikmyndagagnrýni víðsvegar af internetinu.

Myndband Of Monsters and Men við lagið Crystals er komið með yfir eina og hálfa milljón áhorfa á YouTube.Vísir/Úr myndbandinu við Crystals
Afar sjaldgæft er að Pixar gefi út myndir með svo stuttu millibili en vaninn er að aðeins ein mynd komi frá kvikmyndaverinu á ári. Hins vegar gekk erfiðlega að klára „The Good Dinosaur“ og í miðju kafi þurfti að skipta um leikstjóra en Peter Sohn tók við af Bob Peterson.

Stiklan er að mestu leyti laus við samræður og minnir því á kvikmyndina WALL-E þar sem lítið var um tal fyrri hluta myndar. Myndin fjallar um risaeðluna Arlo og ungan dreng að nafni Spot. Þeir ferðast yfir fallegt landslag eins og sjá má í stiklunni hér að neðan. Tónlist hinnar íslensku hljómsveitar fær því að njóta sín í stiklunni en stjarna Of Monsters and Men skín sífellt skærar vestanhafs.

Óhætt er að álykta að tækifæri sem þetta komi til með að vekja ennfrekari athygli á hljómsveitinni enda er um stórt kvikmyndafyrirtæki að ræða sem hefur á undanförnum árum verið duglegt við að koma myndum sínum á framfæri. Lagið mun því hljóma í bíóhúsum um heim allan innan skamms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×