Lífið

Íhugar að klippa hárið eftir sýninguna

Eyþór Ingi Gunnlaugsson leikur Jesú í einni vinsælustu rokkóperu allra tíma þegar tónleikaútgáfa Jesus Christ Superstar.
Eyþór Ingi Gunnlaugsson leikur Jesú í einni vinsælustu rokkóperu allra tíma þegar tónleikaútgáfa Jesus Christ Superstar.
„Ég er virkilega spenntur, það er gaman að fá séns á því að gera þetta aftur,“ segir tónlistarmaðurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Hann leikur Jesú í einni vinsælustu rokkóperu allra tíma þegar tónleikaútgáfa Jesus Christ Superstar eftir Andrew Lloyd Webber og Tim Rice verður færð upp í heild á sviði Eldborgar í Hörpu og í Hofi á Akureyri .

„Þetta er geggjaður hópur og ég hlakka mikið til,“ segir Eyþór Ingi um sýninguna. Aðrir söngvarar eru Þór Breiðfjörð sem leikur Júdas, Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur Pontíus Pílatus, Ragga Gröndal leikur Maríu Magdalenu, Jóhann Sigurðarson leikur Kaífas, Ólafur Egilsson leikur Heródes og Annas og þá leikur Magni Ásgeirsson Pétur postula og Símon vandlætara. „Ég held ég sé samt spenntastur fyrir því að sjá Björn Jörund taka Pontíus Pílatus,“ bætir Eyþór Ingi við.

Hinn hárprúði tónlistarmaður hefur þó brugðið sér í líki Jesú áður. „Ég byrjaði að safna hári út af hlutverkinu þegar ég lék Jesú í uppfærslu VMA árið 2006. Ég hef ekki klippt það síðan. Eftir sýninguna hugsaði ég með mér, ég hefði getað gert þetta betur þannig að ég leyfði faxinu að hanga og núna er komið að því,“ útskýrir Eyþór Ingi. „Nú fer ég aftur í naflaskoðun hvort ég láti það fjúka eftir þetta.“

Þór Breiðfjörð leikur Júdas, Ragga Gröndal leikur Maríu Magdalenu og Björn Jörundur Friðbjörnsson leikur Pontíus Pílatus.
Eyþór Ingi hefur komið víða við síðan í uppfærslunni í VMA og hefur hár hans oft komist í umræðuna. „Það hefur enginn fengið að snerta hárið á mér. Leikstjórar og aðrir hafa oft reynt að fá mig til þess að klippa mig og lita. Til dæmis í Rocky Horror, Hárinu og Vesalingunum. Það átti líka að vesenast í hárinu fyrir Eurovision en það kom ekki til greina,“ segir Eyþór Ingi og hlær. 

Tónlistarstjóri í uppfærslunni er Friðrik Karlsson en hann þekkir tónlistina ansi vel. „Frissi er búinn að vera að spila í Jesus Christ Superstar sýningum á vegum fyrirtækis Andrews Lloyd Webber sem heitir The Really Useful Group. Við erum með sérstakt leyfi frá því fyrirtæki,“ segir Eiður Arnarsson bassaleikari. Þeir Friðrik standa á bak við sýninguna.

„Frissi hefur spilað í sýningunni í Bretlandi og Ástralíu. Þetta hafa verið risagigg hjá honum og hefur hann verið að koma fram í tíu til fimmtán þúsund manna tónleikahöllum,“ bætir Eiður við. Sýningin hér á Íslandi verður í tónleikaformi en ekki hinu hefðbundna óperuformi en Selma Björnsdóttir leikstýrir uppfærslunni.

Jesus Christ Superstar kom fyrst út á tvöfaldri hljómplötu árið 1970 þar sem Ian Gillan og Murray Head sungu burðarhlutverkin, Jesú og Júdas. Verkið var fyrst sett á svið á Broadway árið 1971 og árið 1973 var gerð kvikmynd sem náði miklum vinsældum.

Jesus Christ Superstar hefur verið sett upp reglulega um allan heim undanfarin 40 ár og þar er Ísland engin undantekning. Fyrsta uppsetningin var árið 1973 í Austurbæjarbíói og fjölmargar uppfærslur í atvinnuleikhúsum og hjá áhugamannaleikhópum hafa síðan fylgt í kjölfarið við miklar vinsældir.

Sýningin fer fram á skírdag, 2. apríl, og föstudaginn langa, 3. apríl í Eldborg og Hofi. Miðasala hefst 17. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×