Lífið

Heldur tónleikaröð bókstaflega frá A-Ö

adda soffía ingvarsdóttir skrifar
Eyþór er ekki mikið fyrir að vera hefðbundinn og á því ekki mynd af sér við orgelið.
Eyþór er ekki mikið fyrir að vera hefðbundinn og á því ekki mynd af sér við orgelið.
Organistinn hressi Eyþór Ingi Jónsson hefur sett saman tónleikaröð sem hann byggir á stafrófinu. „Hverjir tónleikar eru tileinkaðir einum bókstaf og nú þegar er ég búinn að halda A-tónleikana.“ segir Eyþór. „Þar voru lög og tónskáld sem byrjuðu á bókstafnum A eða lög sem voru í A-moll,“ bætir hann við.

Sem organisti er hann þekktur fyrir að fara ótroðnar slóðir í starfi sínu og því leggur hann mikla áherslu á að stafrófs-tónleikarnir séu fjölbreyttir. „Ég er ekki að þessu bara til þess að vera öðruvísi, heldur vil ég hafa þetta öðruvísi og fjölbreytt svo þetta henti sem flestum,“ segir hann.

Mikil vinna liggur að baki tónleikanna og reiknar Eyþór með að talsverðan tíma taki að klára stafrófið. „Líklega verð ég einhver ár að þessu segir hann og hlær. Ég ætla að sleppa Á, Ð, og þannig stöfum, en ég er ákveðinn í að halda X-tónleika. Það er sem betur fer langt í þá því það verður örugglega þó nokkur vinna að finna lög og höfunda sem byrja á X,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×