Erlent

Fjærhlið Tunglsins næst á mynd

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jörðin ásamt félaga sínum, Tunglinu.
Jörðin ásamt félaga sínum, Tunglinu. NASA
Þann 16. júlí sl. náði myndavél um borð í Deep Space Climate Observatory gervihnettinum einstökum myndum af fjærhlið tunglsins en það er sú hlið tunglsins sem við Jarðarbúar fáum ekki að sjá hér frá Jörðinni nema með aðstoð tækninnar.

Hlutverk gervihnattarins er að fylgjast með sólarvindum í rauntíma. Gervihnötturinn fylgist með jörðinni snúast og veitir vísindamönnum mikilvægar upplýsingar um óson-lagið, gróðurþekju og skýjahæð.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem myndir nást af fjærhlið tunglsins en Sævar Helgi Bragason, Formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, segir að von sé á fleiri slíkum myndum frá gervihnettinum.

„Þetta er nýtt gervitungl sem starir á okkur úr 1.5 milljón kílómetra fjarlægð. Við megum eiga von á fullt af svona fallegum myndum af Móður jörð á næstunni. Þetta er ótrúlega falleg mynd og gaman að sjá tunglið upplýst svona sem við sjáum venjulega aldrei.“

Ástæðan fyrir því að tunglið sýnir okkur aldrei þessa hlið er einföld segir Sævar Bragi.

„Tunglið snýst jafn hratt um sjálft sig eins og það snýst einn hring í kringum jörðina. Það þýðir þá að við sjáum alltaf bara sömu hliðina. Það er mjög algengt í sólkerfinu en flest tunglin í sólkerfinu snúast þannig í kringum plánetur sínar.“

NASA hefur sett myndirnar saman í myndband sem má sjá hér:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×